Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Framhald samræðna um Guðberg og Gillz flutt af Facebook

Ég ákvað, til þess að vera ekki að fylla svæði málshefjanda, að setja svar mitt hingað og vísa svo í það á Facebook.

http://www.facebook.com/permalink.php?story_fbid=454533311226453&id=100000093630998&ref=notif&notif_t=feed_comment_reply

Jón skrifaði: „Það sem ég skil ekki er sú leið hugsana sem þarf til að komast að þeirri niðurstöðu að maður eins og Guðbergur setjist niður og ákveði að nú sé tími til kominn að níðast á hugsanlegu fórnarlambi nauðgunar opinberlega. Leiða það síðan af þeirri niðurstöðu sinni að þeir sem lesi viðkomandi texta án þess að setja út á hann séu þar með að leggja blessun sína yfir slíkt framferði. Það er stórhættuleg leið til skilnings á umhverfi sína að taka allt bókstaflega, enda er ástæða fyrir því að bókstafstrú er almennt álitin neikvæð nálgun á trúarbrögð t.d. .. Það hljóta allir Kristján að vera á móti bæði nauðgunum og nauðgurum nema þeir sjálfir. Að sama skapi hljóta allir að hafa samúð með fórnarlömbum nauðgana. Það er einfaldlega ekki með nokkru móti hægt að komast að niðurstöðu líkt og þú hefur gert hér og telja hana rökrétta sé almennri beitt skynsemi í leið sinni að þeirri niðurstöðu.“

Jón skrifaði: „Og það er eiginlega alveg á mörkunum að þetta sé eitthvað sem menn geta verið "sammála um að vera ósammála um" vegna þess að í orðum þínum fellst ásökun á hendur Guðbergi og öllum þeim sem skilja þennan pistil á annan hátt en þú sjálfur.. Ásökun um það að viðkomandi telji það í lagi að níðast á hugsanlegum fórnarlömbum nauðgana. Það er alvarleg ásökun, og ekki eitthvað sem þú getur ákveðið að sé meining þeirra sem þú sakar um slíkt og borið því svo við að menn verði bara að vera ósammála um það. Ef þú t.d. læsir einhver skrif eftir mig og segðir svo að ég hlyti að vera Framsóknarmaður, þá væri það varla eitthvað sem þú gætir eftir samskipti við mig þar sem ég neitaði þeim alvarlegu ásökunum ákveðið að við yrðum bara að vera ósammála um.. er það?“

Svar: 

Ég tel mig hvergi hafa sagt að Guðbergur hafi ákveðið að níðast á öðrum aðila málsins. Ég tel hins vegar að Guðbergi hafi ekki sést fyrir í sniðugheitum sínum og ekki gætt að því að hann væri að fjalla um lifandi mál með báða aðila (og eflaust fleiri aðila) veika fyrir því sem um það er skrifað. Lýsing Guðbergs á Agli er þannig að ég get ekki fyrir nokkurn mun séð að hann sé að gera grín að honum: „venjulegur, eðlisgreindur, fyndinn og gull af manni en dálítið hégómlegur“. Lýsing Guðbergs á stúlkunni er hins vegar: „hún heimtar hjónaband eða pening“. Er það nokkuð fjarri sanni að segja að Guðbergur „haldi með“ öðrum aðilanum?

Ég þekki aðila sem ég ber virðingu fyrir sem sáu þennan pistil eins og þú, en ekki eins og ég. Það að ekki hafi verið kveikt á sömu viðkvæmu punktum og ég kveikti á gerir það ekki að viðkomandi aðilar telji í lagi að níðast á einum né neinum.

Þegar hins vegar búið er að benda á viðkomandi punkta, að þeir geti verið eins og hnífur í opið sár, þá er varla annað hægt en að túlka svör um að maður sé kjáni fyrir að sjá ekki snilldina að viðkomandi beri litla virðingu fyrir þeim aðila sem telur að yfir strikið sé farið. Það má örugglega túlka það þannig að viðkomandi aðilar hafi takmarkaða samúð með öðrum málsaðilanum, nema samræður leiði annað í ljós. Samræður eins og þessar, okkar á milli, eru hins vegar hverfandi form, og því erfitt að leiðrétta slíkar túlkanir.

Ég veit hvað Guðbergur er gamall. Ég þekkti afar vel fólk af svipuðum kynslóðum og Guðbergur, og ég veit að dæmin sem hann tiltekur um hvað meintar nauðganir geti verið ómerkileg mál voru litnar allt öðrum augum fyrir örfáum áratugum. Ég kann sögu sem þótti drepfyndin upp úr miðri síðustu öld, en myndi ekki fá marga til að hlæja upphátt í dag.

Þannig er með sögurnar hans Guðbergs í þessum pistli. Að ýja að því að stúlkan, sem á víst að vera svo lítilfjörleg (skv. Agli) að láta aðra stjórna sér í kærumálum, sé með „stelpupussulæti“ og sé á eftir peningum eða hjónabandi, snertir mann eins og mig niður í kviku. Ég tel þetta vera beint níð á viðkomandi stúlku, komið til af því að Guðbergi sjáist ekki fyrir í sniðugheitum sínum. Hann vanti samkennd. Að tala svo um að fermingarstúlka (barn) láti öllum illum látum þegar um kynferðisbrot er að ræða (a.m.k. á okkar tíma mælikvarða, þar sem það er saknæmt að hafa samræði við börn undir 14 ára aldri og innan við helmingur fermingarbarna hefur náð fullum 14 árum) er virkilega lágkúrulegt í samhengi þessa máls. Þetta er ekki ritsnilld að mínu mati.

Í framhaldinu vil ég benda á annan pistil Guðbergs þar sem hann heggur í svipaðan knérunn:

„Hetjan sem skeit á sig“ (22.2.2012 - 16:23 http://blog.pressan.is/gudbergur/2012/02/22/hetjan-sem-skeit-a-sig/).

Þar er reyndar því til að dreifa að dómur er upp kveðinn. Guðbergur vílar hins vegar ekki fyrir sér að gerast dómsauki og búa til uppnefni á annan aðila málsins sem hann giskar á að gætu hentað viðkomandi sem framtíðar viðurnefni.

Guðbergur virðist þarna líta á sig sem einhvern „Gvend hlunk í ættinni“ sem beri að segja viðkomandi barni til syndanna, og það beri að gera sem fyrst, því að ekki gagni að segja fullorðnu fólki til syndanna.

Í þessu máli, eins og í máli Egils, ákveður Guðbergur að níða annan aðila málsins með sniðugheitum. Hvort hann hafi ákveðið það fyrirfram, eða hvort það hafi bara gerst þegar hann fer að skrifa um viðkomandi mál út frá öðru sjónarhorni (það er að almennt megi ala fólk betur upp), get ég náttúrlega ekki sagt til um. Ég er því ekki að halda fram hér heldur að Guðbergur hafi sest niður til þess að níða annan aðilann, og ég er ekki að halda því fram að þeir sem ekki sjái þessi atriði sem ég sé, séu níðingar. Ég hins vegar tel það aftur hér, að þeir sem ekki sjái það meinta níð sem bent er á, eða vilji ekki sjá það vegna „ritsnilldar“, séu með of lágan samkenndarþröskuld.

Nú er það þitt að svara, Jón, hvort við séum að nálgast sameiginlegan skilning á umræðuefninu, og í framhaldi hvort við séum enn ósammála.


Skilanefndarstarfið svo lítið að nægur tími er að sinna almennum störfum?

Nú hefur manni skilist á allri umræðu um launagreiðslur til skilanefndarmanna að þetta væri rúmlega fullt starf og fólk jafnvel svæfi ekki af álagi.

Svo er bara nægur tími til að sinna almennum lögmannsstörfum í leiðinni! Eða er þetta rangur misskilningur hjá mér?


mbl.is Verjandi situr í eftirlitsnefnd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Peningagaldur - þetta ætti að vera kennt í grunnskólum...

... og vera til prófs til að komast í framhaldsnám: http://www.vald.org/greinar/101116.html

Þetta kristallar líka átökin í Vinstri-Grænum núna. Steingrímur er á fullu að verja þetta kerfi, á meðan Lilja vill komast undan því. Og svo er Lilja kölluð lýðskrumari af sérvöldum álitsgjöfum fjölmiðlanna - sem nota bene er stýrt af banksterum.


Meira um lífeyrissjóði: „vönduð, sanngjörn og studd rökum“ skal umræðan vera

Helgi Magnússon, formaður lífeyrissjóðs verslunarmanna, skrifar grein sem birt er á Vísi (http://www.visir.is/800-milljarda-uppvakningur/article/2010825420085) um það að nauðsynlegt sé að umræða um lífeyrissjóðina sé vönduð: „Við förum fram á að umræða um málefni lífeyrissjóðanna sé vönduð, sanngjörn og studd rökum.“

Nú væri ekki slæmt ef hann myndi svara því hvort að grein Bjarna Þórðarsonar, tryggingarstærðfræðings, sem ég hef skrifað um áður (http://skrekkur.blog.is/blog/skrekkur/entry/1124975/) falli undir það að vera „vönduð, sanngjörn og studd rökum“. Eða eru það bara gagnrýnendur kerfisins sem þurfi að fara eftir þessum sjálfsögðu kröfum?


„Það er gott að hafa góða samningamenn“

„Það er gott að hafa góða samningamenn.“ 

Þetta var niðurstaða Guðmundar Ólafssonar í morgunútvarpinu núna rétt áðan. Ég tel að það sé rétt, en ég misskildi örugglega eitthvað forsendur hans.

Eftir að hann hafði haft uppi hæðni* um nokkra þá menn sem komið hafa að æseif þá skildi ég ekki betur en að hann þakkaði Lee Buchheit (og Lárusi Blöndal)** alfarið nýju samningana, en hafði þó lýst því rétt áður að þeir hafi nú bara tekið tilboði því sem kom frá Bretum strax og Ólafur Ragnar Grímsson hafði hafnað síðustu samningum.

Eins og ég segi, ég hlýt að hafa misskilið meiraprófsbílstjórann*** eitthvað, því varla hefur hann ætlað að skora stig hjá bæði ÓRG og Birni Bjarnasyni í sömu ræðunni.

* Sem þykir oft fínt í bloggi sem lítið mark er tekið á, þ.m.t. hér, en er einhvern veginn minna spennandi í morgunútvarpinu.

** Að ógleymdum Heiðari Má, sem hefur sér það eitt til saka unnið að hafa ekki tapað á hruninu, og vera tengdasonur BB. 

*** Þannig skrifaði hann alltaf undir skrif sín á icenews í gamla daga. Það er nokkuð svalt.

ES: Fyrst ég minnist nú á ÓRG, þá vil ég þakka honum fyrir að nýta málskotsréttinn, og biðja hann jafnframt í leiðinni að segja sem allra fyrst af sér. (Dorrit getur vel sinnt embættinu fram að kosningum.)


Lífeyrissjóðir og "afbragðs greinar" - treystum við þessum sjóðum?

Ég datt inn á það að fara að lesa greinar Ólafs Margeirssonar, doktorsnema í hagfræði. (http://www.pressan.is/pressupennar/Lesa_Olaf_MArgeirsson/raunsaei-doktorsnema)

Ég las nokkrar af hans greinum, og mér fannst hann setja mál sitt fram af yfirvegun og rökum. Sá síðan að hann benti á svargrein Bjarna Þórðarsonar, tryggingarstærðfræðings (http://www.ll.is/?i=2&o=1167#) og ákvað að lesa hana líka til þess að sjá hvaða mótrök væru gegn staðhæfingum Ólafs, sem eru jú nokk skuggalegar ef réttar reynast.

Sá lestur byrjaði reyndar ágætlega: "Bjarni Þórðarson, tryggingastærðfræðingur skrifar afbragðs grein í Morgunblaðinu í gær, þar sem hann mótmælir harðlega hræðsluáróðri Ólafs Margeirssonar í garð lífeyrissjóðanna." Þetta gaf vissulega von um að rök Ólafs yrðu tætt í sig og kerfið útskýrt í þaula af manni með sérfræðiþekkingu á því. Greinin yrði huggun harmi gegn, og maður gæti sofið rólegur yfir því að það versta væri mögulega að verða yfirstaðið í hruni þjóðarinnar.

En, nei. Hápunktar greinarinnar eru t.d. "Þvílíkt dómadagsrugl er þetta." og "Gífuryrði og rakalausar fullyrðingar hans eru góð dæmi um þá neikvæðu miður frósömu  umræðuhefð sem dafnar vel í þjóðfélaginu eftir hrunið og er oft  áberandi í Silfri Egils að því er málefni lífeyrissjóða varðar."

Það eru engir tryggingastærðfræðilegar útskýringar á því hvernig kerfið er byggt upp og af hverju það muni ekki hrynja. Öll menntun þessa "afbragðs tryggingastærðfræðings" kristallast í orðunum "dómadagsrugl" og "frósama umræðuhefð", og yfir þessum pistli virðist forusta Landssamtaka lífeyrissjóða missa þvag af einskærri hamingju.

Þetta eru nákvæmlega sama umræðuhefð og notuð er gegn Marinó G. Njálssyni, sem hefur skrifað ótalmarga ítarlega og afar vel rökstudda pistla undanfarin ár um hrunið, afleiðingar þess og ástæður. Varðhundar fjármagnseiganda skrifa samkvæmt pöntunum slíka "afbragðs" pistla og ég vísa hér í, í bunum til þess að afvegaleiða umræðuna og skíta út boðbera válegra tíðinda, sem, ef teknir eru alvarlega af, gætu varnað því að önnur álíka ósköp og við glímum nú við, dynji yfir þjóðinni aftur.

ES: Það er best að hafa "afbragðs greinina" hér með, því ég get alveg ímyndað mér að hún hverfi, ef menn fara í raun að lesa hana:

"Sunnudagur 21. 11. 10
Dómadagsrugl doktorsnema

Bjarni Þórðarson, tryggingastærðfræðingur skrifar afbragðs grein í Morgunblaðinu í gær, þar sem hann mótmælir harðlega hræðsluáróðri Ólafs Margeirssonar í garð lífeyrissjóðanna. Grein Bjarna birtist hér í heild sinni:

"Silfur Egils hefur fengið nýjan liðsmann til þess að sverta lífeyrissjóðina í augum almennings.
Sl. sunnudag ræddi Egill við Ólaf Margeirsson, doktorsnema í hagfræði við háskólann í Exeter, en sá skóli nýtur virðingar og trausts.
Titill Ólafs er því mjög til framdráttar þeim sjónarmiðum sem slíkur ætlaður lærdómsmaður setur fram. Ólafur reiddi hátt til höggs og sakaði forráðamenn lífeyrissjóða og eftirlitsaðila um að lífeyrissjóðakerfi landsmanna væri ein allsherjar svikamylla sem hann jafnaði við hina frægu Ponzi píramída, þar sem hinir fyrstu fá ríkulega ávöxtun á fé sitt en hinir síðustu koma að brunarústum og fá ekkert til baka.

Í grein á Pressunni 12. þ.m. segir Ólafur:  „Óvart var, þegar 3,5% viðmiðið var sett fram, búinn til risavaxinn Ponzi píramídi sem er nú við það að hrynja endanlega.“ Og síðan í lok greinarinnar: „--en ef sameignakerfið er ekki tekið í gegn nú þegar mun Ponzi píramídinn sem það er hrynja endanlega niður á nú þegar gjaldþrota hagkerfi Íslands. Og þá mun enginn, hvorki verkalýðurinn né fyrirtæki, bera nokkurn skapaðan hlut úr býtum.“  Enginn frekari rökstuðningur er fyrir staðhæfingunni.
Að mati Ólafs hrynur kerfið sem sagt ef það er ekki tekið í gegn ekki seinna en núna og verður rústir einar  og enginn fær neitt úr því! Þvílíkt dómadagsrugl er þetta.
Á 10. áratug síðustu aldar og á fyrstu árum þessarar aldar heyrðist oft gagnrýni á hið „lága“ ávöxtunaviðmið, 3,5%, vegna þess að sjóðirnir nutu almennt mun hærri raunávöxtunar. Hvað varð um þessa umframávöxtun? Að sjálfsögðu var hún nýtt til þess að auka réttindi sjóðfélaganna. Hið sama gerist með gagnstæðu formerki ef ávöxtunin er lægri en viðmiðið. Um þetta gilda skýrar reglur sem sjóðirnir verða og telja sjálfsagt að fara eftir. Þeir hafa nú tekizt á við alvarlegar afleiðingar efnahagshrunsins og hafa orðið að skerða réttindi umtalsvert en mismikið og eflaust munu ýmsir sjóðir þurfa að skerða réttindi enn frekar. Forsvarsmenn lífeyrissjóðanna og sérfræðingar sem og fulltrúar stjórnvalda munu gæta þess í framtíðinni sem hingað til að sjóðirnir mismuni ekki sjóðfélögunum og í því felst m.a. að færa ekki fjármuni milli aldurshópa heldur laga réttindin að aðstæðum á hverjum tíma.
Ólafur Margeirsson hlýtur að hafa eitthvað þarfara að gera við sína hagfræðimenntun en að skapa ótta í samfélaginu um hrun lífeyrissjóðakerfisins. Það mun laga sig að breytingum á vaxtastigi í þjóðfélaginu án afskipta Ólafs. Gífuryrði og rakalausar fullyrðingar hans eru góð dæmi um þá neikvæðu miður frósömu  umræðuhefð sem dafnar vel í þjóðfélaginu eftir hrunið og er oft  áberandi í Silfri Egils að því er málefni lífeyrissjóða varðar."
Bjarni Þórðarson
tryggingastærðfræðingur"


Breyta þessu bara í ríkisskóla

Er ekki einfalt að breyta þessu bara í ríkisskóla?

Hefur skólinn ekki sannað sig að eiga rétt á sér með þeim nemendum sem hann hefur útskrifað?

Getur ekki fyrrum aðstoðarskólastjóri Hraðbrautar tekið að sér að stýra þessum skóla fyrir það fjármagn sem hingað til hefur verið úthlutað í reksturinn? (Ekki það að ég þekki hana neitt nema héðan af blogginu, en það er líka alveg nóg.)


mbl.is Aðrir taki við nemendum Hraðbrautar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Guðmundur Gunnarsson og Þór Saari í Kastljósi

Merkilegt hvað Guðmundur Gunnarsson, nýji stjórnlagaþingmaðurinn, æsti sig mikið yfir ómennsku þingmanna landsins í Kastljósi kvöldsins, en lyppaðist svo niður þegar Þór Saari beit ekki á agnið og hélt ró sinni og hlustaði á bullið í honum.

Ekki býst ég við að þessi maður verði komandi stjórnlagaþingi til góðs.


Einnig nauðsyn að tryggja virkni atkvæða

Miðað við þær fréttir sem verið hafa af því hvernig atkvæði verða talin, þá stefnir í það vinsældakjör sem sjálfskipaðir sérfræðingar vara nú ítrekað við.

Sé þetta rétt, þá eru þetta forkastanleg "Yes Minister" vinnubrögð og embættismannakerfinu til algerrar skammar fyrir hönd þjóðarinnar. (Sennilega fær embættismannakerfið þó sérstaka heiðursviðurkenningu frá höfundum þáttanna "Yes minister".)

Undanfarin ár hef ég verið langdvölum í Ástralíu, meðal annars bæði í kosningabaráttu sveitarstjórnarkosninga í fyrra (sem enginn virtist hafa áhuga á), og í kosningabaráttu og kosningum til alþingis þar nú í sumar (sem 1 eða 2 sögðust hafa áhuga á).

Það var afar merkilegt að fylgjast með alþingiskosningunum. Meginástæður þess að nú er "samsteypustjórn" í Ástralíu er sú að kosningakerfið hvetur þig til þess að kjósa þinn uppáhalds frambjóðanda. Nái viðkomandi ekki kjöri, þá færist atkvæði þitt yfir á þann sem þú settir númer 2, og svo koll af kolli, þar til endanleg úrslit eru komin fram.

Þetta virkar svo sjálfsagt á mig, að ég stend og gapi yfir fáránlegum ákvörðunum spillingaraflanna hér á Íslandi.

ES: Í umræðum um Ísland vs. Tasmaníu, sögðu Tasmanir að sennilega væru þeir með alveg jafn spillta stjórnmálaelítu og Ísland, ef ekki kæmi til að þeir væru eitt af ríkjum Ástralíu.


mbl.is Eiga að geta kosið með eðlilegum hætti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Virkur viðskiptavinur

Kona mín og dóttir fóru í vikunni til Lundúna. Áður en þær fóru, var ákveðið að kaupa smá skotsilfur fyrir minni útgjöld, nánar tiltekið 100 pund.

Við fórum í okkar viðskiptabanka, þar sem við vorum afgreidd af vingjarnlegum gjaldkera, sem kannast ágætlega við okkur.

Ég lagði fram debit-kortið mitt til greiðslu, og þá var beðið um farseðilinn minn. Nei, ég var ekki fara út, og var því ekki með neinn farseðil, heldur konan.

Konunni minni var þá flett upp, og okkur sagt að þar sem hún væri ekki virkur viðskiptavinur þá mætti ekki afgreiða hana með gjaldeyri. "Virkur viðskiptavinur", hváði ég. "Hvað er virkur viðskiptavinur?". Jú, þú verður að fá laun inn á reikning í bankanum til þess að vera virkur viðskiptavinur. Já, en konan er ekki í vinnu, en hún hefur verið viðskiptavinur hér í 15 ár og er með veltu á reikningnum sínum. Er það ekki næg virkni? Nei. Samkvæmt reglum bankans er það ekki næg virkni. Landsbankinn í Leifsstöð (sem er iðulega með hærra gengi en aðrir bankar) getur afgreitt þig.

Þar sem ég hef sjálfur unnið í banka (þó nokkuð sé um liðið), þá spurði ég gjaldkerann hvort þetta væri ekki frekar erfitt umhverfi sem framlínufólk í bönkunum ynni í núna. Það var bara dæst.

Sagan  er ekki alveg búin, en þessi hluti hennar er það sem ég vil tjá mig um hér.

Ég mun fagna sérstaklega (bjóða fjölskyldunni út að borða) daginn sem ég get slitið öllum viðskiptum mínum við þennan banka. Stofnun sem ég hef bæða starfað við og verið í viðskiptum við síðan á menntaskólaárum mínum.

ES: Jú, einn hluta sögunnar má nefna í viðbót. Bankarnir biðja nú viðskiptavini um að framvísa (helst) vegabréfi til innskönnunar til að vera alveg viss um hverjir þeir eru. Vegabréf konunnar var skannað, fyrst hún var með það (þó að hún væri ekki virkur viðskiptavinur), og spurt var um mitt. Ég sagðist aldrey myndu koma með það, og vonaði helst að bankinn myndi reka mig úr viðskiptum fyrir þá ósvífni.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband