Bloggfærslur mánaðarins, desember 2010

Peningagaldur - þetta ætti að vera kennt í grunnskólum...

... og vera til prófs til að komast í framhaldsnám: http://www.vald.org/greinar/101116.html

Þetta kristallar líka átökin í Vinstri-Grænum núna. Steingrímur er á fullu að verja þetta kerfi, á meðan Lilja vill komast undan því. Og svo er Lilja kölluð lýðskrumari af sérvöldum álitsgjöfum fjölmiðlanna - sem nota bene er stýrt af banksterum.


Spurning varðandi fyrirtækjastjórnendakönnunina

Sambærileg könnun sem gerð var fyrir samtök atvinnulífsins (sjá hér: http://www.sa.is/frettir/almennar/nr/5023/) virðist vera nokkurn vegin jafn dökk og hjá okkur „neytendum“. Ég var þó aðeins að skoða bjartsýnistölurnar í þeirri könnun, og eftirfarandi er ekki alveg að dansa í mínum kolli:

„Þeir örfáu stjórnendur sem telja aðstæður góðar starfa í sjávarútvegi og í iðnaði en í öðrum greinum telur enginn að aðstæður séu góðar.“ ... „ Í upphaflegu úrtaki voru 418 stærstu fyrirtæki landsins (miðað við heildarlaun) og var svarhlutfall var 44%“

1% af 44% af 418 reiknast mér til að séu 1,8392 fyrirtæki. Ætli þetta séu þá ekki stjórnendur tveggja fyrirtækja sem eru bjartsýnir, og þar af annar þeirra í sjávarútvegi og hinn í iðnaði?

Einnig: eru stjórnendur þeirra 56% fyrirtækja sem engin svör berast frá á þessari sömu línu, og má þá reikna með að öll sjávarútvegsfyrirtæki svari eins og þetta eina sem svaraði jákvætt, eða eru 99% þeirra ekki eins bjartsýn og þessi eini?


mbl.is Íslendingar svartsýnir í árslok
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meira um lífeyrissjóði: „vönduð, sanngjörn og studd rökum“ skal umræðan vera

Helgi Magnússon, formaður lífeyrissjóðs verslunarmanna, skrifar grein sem birt er á Vísi (http://www.visir.is/800-milljarda-uppvakningur/article/2010825420085) um það að nauðsynlegt sé að umræða um lífeyrissjóðina sé vönduð: „Við förum fram á að umræða um málefni lífeyrissjóðanna sé vönduð, sanngjörn og studd rökum.“

Nú væri ekki slæmt ef hann myndi svara því hvort að grein Bjarna Þórðarsonar, tryggingarstærðfræðings, sem ég hef skrifað um áður (http://skrekkur.blog.is/blog/skrekkur/entry/1124975/) falli undir það að vera „vönduð, sanngjörn og studd rökum“. Eða eru það bara gagnrýnendur kerfisins sem þurfi að fara eftir þessum sjálfsögðu kröfum?


„Það er gott að hafa góða samningamenn“

„Það er gott að hafa góða samningamenn.“ 

Þetta var niðurstaða Guðmundar Ólafssonar í morgunútvarpinu núna rétt áðan. Ég tel að það sé rétt, en ég misskildi örugglega eitthvað forsendur hans.

Eftir að hann hafði haft uppi hæðni* um nokkra þá menn sem komið hafa að æseif þá skildi ég ekki betur en að hann þakkaði Lee Buchheit (og Lárusi Blöndal)** alfarið nýju samningana, en hafði þó lýst því rétt áður að þeir hafi nú bara tekið tilboði því sem kom frá Bretum strax og Ólafur Ragnar Grímsson hafði hafnað síðustu samningum.

Eins og ég segi, ég hlýt að hafa misskilið meiraprófsbílstjórann*** eitthvað, því varla hefur hann ætlað að skora stig hjá bæði ÓRG og Birni Bjarnasyni í sömu ræðunni.

* Sem þykir oft fínt í bloggi sem lítið mark er tekið á, þ.m.t. hér, en er einhvern veginn minna spennandi í morgunútvarpinu.

** Að ógleymdum Heiðari Má, sem hefur sér það eitt til saka unnið að hafa ekki tapað á hruninu, og vera tengdasonur BB. 

*** Þannig skrifaði hann alltaf undir skrif sín á icenews í gamla daga. Það er nokkuð svalt.

ES: Fyrst ég minnist nú á ÓRG, þá vil ég þakka honum fyrir að nýta málskotsréttinn, og biðja hann jafnframt í leiðinni að segja sem allra fyrst af sér. (Dorrit getur vel sinnt embættinu fram að kosningum.)


Lífeyrissjóðir og "afbragðs greinar" - treystum við þessum sjóðum?

Ég datt inn á það að fara að lesa greinar Ólafs Margeirssonar, doktorsnema í hagfræði. (http://www.pressan.is/pressupennar/Lesa_Olaf_MArgeirsson/raunsaei-doktorsnema)

Ég las nokkrar af hans greinum, og mér fannst hann setja mál sitt fram af yfirvegun og rökum. Sá síðan að hann benti á svargrein Bjarna Þórðarsonar, tryggingarstærðfræðings (http://www.ll.is/?i=2&o=1167#) og ákvað að lesa hana líka til þess að sjá hvaða mótrök væru gegn staðhæfingum Ólafs, sem eru jú nokk skuggalegar ef réttar reynast.

Sá lestur byrjaði reyndar ágætlega: "Bjarni Þórðarson, tryggingastærðfræðingur skrifar afbragðs grein í Morgunblaðinu í gær, þar sem hann mótmælir harðlega hræðsluáróðri Ólafs Margeirssonar í garð lífeyrissjóðanna." Þetta gaf vissulega von um að rök Ólafs yrðu tætt í sig og kerfið útskýrt í þaula af manni með sérfræðiþekkingu á því. Greinin yrði huggun harmi gegn, og maður gæti sofið rólegur yfir því að það versta væri mögulega að verða yfirstaðið í hruni þjóðarinnar.

En, nei. Hápunktar greinarinnar eru t.d. "Þvílíkt dómadagsrugl er þetta." og "Gífuryrði og rakalausar fullyrðingar hans eru góð dæmi um þá neikvæðu miður frósömu  umræðuhefð sem dafnar vel í þjóðfélaginu eftir hrunið og er oft  áberandi í Silfri Egils að því er málefni lífeyrissjóða varðar."

Það eru engir tryggingastærðfræðilegar útskýringar á því hvernig kerfið er byggt upp og af hverju það muni ekki hrynja. Öll menntun þessa "afbragðs tryggingastærðfræðings" kristallast í orðunum "dómadagsrugl" og "frósama umræðuhefð", og yfir þessum pistli virðist forusta Landssamtaka lífeyrissjóða missa þvag af einskærri hamingju.

Þetta eru nákvæmlega sama umræðuhefð og notuð er gegn Marinó G. Njálssyni, sem hefur skrifað ótalmarga ítarlega og afar vel rökstudda pistla undanfarin ár um hrunið, afleiðingar þess og ástæður. Varðhundar fjármagnseiganda skrifa samkvæmt pöntunum slíka "afbragðs" pistla og ég vísa hér í, í bunum til þess að afvegaleiða umræðuna og skíta út boðbera válegra tíðinda, sem, ef teknir eru alvarlega af, gætu varnað því að önnur álíka ósköp og við glímum nú við, dynji yfir þjóðinni aftur.

ES: Það er best að hafa "afbragðs greinina" hér með, því ég get alveg ímyndað mér að hún hverfi, ef menn fara í raun að lesa hana:

"Sunnudagur 21. 11. 10
Dómadagsrugl doktorsnema

Bjarni Þórðarson, tryggingastærðfræðingur skrifar afbragðs grein í Morgunblaðinu í gær, þar sem hann mótmælir harðlega hræðsluáróðri Ólafs Margeirssonar í garð lífeyrissjóðanna. Grein Bjarna birtist hér í heild sinni:

"Silfur Egils hefur fengið nýjan liðsmann til þess að sverta lífeyrissjóðina í augum almennings.
Sl. sunnudag ræddi Egill við Ólaf Margeirsson, doktorsnema í hagfræði við háskólann í Exeter, en sá skóli nýtur virðingar og trausts.
Titill Ólafs er því mjög til framdráttar þeim sjónarmiðum sem slíkur ætlaður lærdómsmaður setur fram. Ólafur reiddi hátt til höggs og sakaði forráðamenn lífeyrissjóða og eftirlitsaðila um að lífeyrissjóðakerfi landsmanna væri ein allsherjar svikamylla sem hann jafnaði við hina frægu Ponzi píramída, þar sem hinir fyrstu fá ríkulega ávöxtun á fé sitt en hinir síðustu koma að brunarústum og fá ekkert til baka.

Í grein á Pressunni 12. þ.m. segir Ólafur:  „Óvart var, þegar 3,5% viðmiðið var sett fram, búinn til risavaxinn Ponzi píramídi sem er nú við það að hrynja endanlega.“ Og síðan í lok greinarinnar: „--en ef sameignakerfið er ekki tekið í gegn nú þegar mun Ponzi píramídinn sem það er hrynja endanlega niður á nú þegar gjaldþrota hagkerfi Íslands. Og þá mun enginn, hvorki verkalýðurinn né fyrirtæki, bera nokkurn skapaðan hlut úr býtum.“  Enginn frekari rökstuðningur er fyrir staðhæfingunni.
Að mati Ólafs hrynur kerfið sem sagt ef það er ekki tekið í gegn ekki seinna en núna og verður rústir einar  og enginn fær neitt úr því! Þvílíkt dómadagsrugl er þetta.
Á 10. áratug síðustu aldar og á fyrstu árum þessarar aldar heyrðist oft gagnrýni á hið „lága“ ávöxtunaviðmið, 3,5%, vegna þess að sjóðirnir nutu almennt mun hærri raunávöxtunar. Hvað varð um þessa umframávöxtun? Að sjálfsögðu var hún nýtt til þess að auka réttindi sjóðfélaganna. Hið sama gerist með gagnstæðu formerki ef ávöxtunin er lægri en viðmiðið. Um þetta gilda skýrar reglur sem sjóðirnir verða og telja sjálfsagt að fara eftir. Þeir hafa nú tekizt á við alvarlegar afleiðingar efnahagshrunsins og hafa orðið að skerða réttindi umtalsvert en mismikið og eflaust munu ýmsir sjóðir þurfa að skerða réttindi enn frekar. Forsvarsmenn lífeyrissjóðanna og sérfræðingar sem og fulltrúar stjórnvalda munu gæta þess í framtíðinni sem hingað til að sjóðirnir mismuni ekki sjóðfélögunum og í því felst m.a. að færa ekki fjármuni milli aldurshópa heldur laga réttindin að aðstæðum á hverjum tíma.
Ólafur Margeirsson hlýtur að hafa eitthvað þarfara að gera við sína hagfræðimenntun en að skapa ótta í samfélaginu um hrun lífeyrissjóðakerfisins. Það mun laga sig að breytingum á vaxtastigi í þjóðfélaginu án afskipta Ólafs. Gífuryrði og rakalausar fullyrðingar hans eru góð dæmi um þá neikvæðu miður frósömu  umræðuhefð sem dafnar vel í þjóðfélaginu eftir hrunið og er oft  áberandi í Silfri Egils að því er málefni lífeyrissjóða varðar."
Bjarni Þórðarson
tryggingastærðfræðingur"


Gaman á að horfa

Það var virkilega gaman að fylgjast með stelpunum okkar á þessu móti. Þó að við ofjarla hafi verið að eiga í þetta sinn, þá sá maður stíganda í liðinu í hverri viðureign, sérstaklega í varnarleiknum. Það er ekki nokkur vafi á öðru en að þetta verði mikil hvatning fyrir handboltann á íslandi, og dýrmæt reynsla í sarpinn.


mbl.is Júlíus: Búnar að leggja mikið inn fyrir framtíðina (myndskeið)
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Breyta þessu bara í ríkisskóla

Er ekki einfalt að breyta þessu bara í ríkisskóla?

Hefur skólinn ekki sannað sig að eiga rétt á sér með þeim nemendum sem hann hefur útskrifað?

Getur ekki fyrrum aðstoðarskólastjóri Hraðbrautar tekið að sér að stýra þessum skóla fyrir það fjármagn sem hingað til hefur verið úthlutað í reksturinn? (Ekki það að ég þekki hana neitt nema héðan af blogginu, en það er líka alveg nóg.)


mbl.is Aðrir taki við nemendum Hraðbrautar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Guðmundur Gunnarsson og Þór Saari í Kastljósi

Merkilegt hvað Guðmundur Gunnarsson, nýji stjórnlagaþingmaðurinn, æsti sig mikið yfir ómennsku þingmanna landsins í Kastljósi kvöldsins, en lyppaðist svo niður þegar Þór Saari beit ekki á agnið og hélt ró sinni og hlustaði á bullið í honum.

Ekki býst ég við að þessi maður verði komandi stjórnlagaþingi til góðs.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband