Gylfi, skammastu þín fyrir að gera grín að okkur; hér er mitt dæmi!

Gefum okkur að fjórir ímyndaðir menn eigi í viðskiptum. Köllum þá t.d. Tryggva, Þór, Herbert og Gylfa.

Tryggvi, Þór og Herbert skulda hver um sig Gylfa 10 milljónir.

Tryggvi er vel stæður, með góðar tekjur og á ekki í neinum vandræðum með að standa í skilum.

Þór er afar illa stæður og fyrirséð að hann muni ekki geta greitt neitt af láni sínu.

Herbert er hins vegar millistéttarmaður (eins og megnið af þjóðinni, og megnið af þeim sem þarf í raun að bjarga) og alls ekki útséð um það hvort hann geti borgað skuldir sínar. (Það fer t.d. eftir því hvort hann geti selt eignir á frosnum markaði).

Það er því ljóst að ekki mun allt innheimtast, en fer eftir áhættumati hversu mikið það verður. Gylfi veit þetta vel, enda keypti hann skuldabréf þeirra Tryggva, Þórs og Herberts á hálfu nafnverði, vitandi að áhættan sé þess virði miðað við þann björgunarpakka sem hann ætlar að bjóða skuldunautunum.

Nú bregður svo við að fyrirskipun kemur frá stjórnvöldum um að afskrifa skuli 20% allra skulda. Því fagnar Tryggvi, enda fær hann þá tvær millj´nir afskrifaðar frá Gylfa, sem hann þó hafði enga þörf fyrir. Hann fer að velta því fyrir sér hvort hann ætti frekar að kaupa sér vélsleða eða mótarhjól, (mér og mínum að meinalausu, því að ég er ekki að öfundast út í Tryggva).

Þór lætur sér fátt um finnast enda er hann í jafn slæmum málum hvort sem hann skuldar átta eða tíu milljónir sem hann getur ekki greitt. Vandi hans er áfram óleystur.

Herbert er hins vegar í þeirri stöðu sem skiptir Gylfa öllu máli (enda keypti hann skuldirnar út á millistéttina). Ef þessi aðgerð stjórnvalda (eða Gylfa) er nóg til að bjarga honum, þá fagnar hann. Sé það ekki nóg þá fagnar hann ekki. (Gylfi vonar að hann fagni.)

Það hefur sem sagt komið upp ný forsenda fyrir Gylfa að hugsa um (þó að sennilega hafi hann þegar verið búinn að gera ráð fyrir henni í sínum dæmum). Hann klórar sér því ekki mikið í hausnum, heldur opnar Excel-inn sinn, og fer yfir dæmin sín aftur:

Forsendur:

30 milljóna krónu kröfur voru keyptar á 15 milljónir með von um að sem mest innheimtist.

Dæmi A:

Tryggvi, Þór og Herbert skulda allir 10 milljónir.

Þeir fá allir 2 milljónir í niðurfellingu.

Gylfi á því útistandandi kröfur upp á 24 milljónir (sem hann keypti á 15).

 

Tryggvi er ríkur og borgar 8 milljónir (og kaupir sér eitthvað skemmtilegt).

Þór er fátækur og borgar ekkert.

Herbert er í millistéttinni (sem flestir eru í) og nær að bjarga sér og borgar 8 milljónir.

Gylfi fær því greiddar 16 milljónir og hefur grætt 1 milljón.

Dæmi B:

Tryggvi, Þór og Herbert skulda allir 10 milljónir.

Aðeins á að bjarga þeim illa stöddu, og fær Þór því niðurfellingu upp á 6 milljónir.

Gylfi á því útistandandi kröfur upp á 24 milljónir (sem hann keypti á 15).

 

Tryggvi er ríkur og borgar 10 milljónir og heldur áfram að lifa flott.

Þór er fátækur, en bjargast, og borgar 4 milljónir.

Herbert er í millistéttinni (sem flestir eru í) og fer á hausinn með frystar eignir og borgar ekkert.

Gylfi fær því greiddar 14 milljónir og hefur tapað 1 milljón. Áhættan var því ekki þess virði.

Dæmi C:

Tryggvi, Þór og Herbert skulda allir 10 milljónir.

Engum á að bjarga því að stjórnvöld taka engar ákvarðanir og Gylfa er alveg sama um hag heimilanna.

Gylfi á því útistandandi kröfur upp á 30 milljónir (sem hann keypti á 15).

 

Tryggvi er ríkur og borgar 10 milljónir og heldur áfram að lifa flott.

Þór er fátækur og fer á hausinn eftir að hafa greitt 2 milljónir.

Herbert er í millistéttinni (sem flestir eru í) og fer á hausinn eftir að hafa borgað 5 milljónir.

Gylfi fær því greiddar 17 milljónir og hefur grætt 2 milljónir. Hann hlær alla leið í bankann og er andskotans sama þó að 2/3  af skuldunautunum hafi farið á hausinn, því að hann getur haldið kröfunum vakandi í áratugi.

Ergó:

Það má setja upp alls konar svona dæmi, en að lokum er það eina sem skiptir máli hvort eigi að bjarga einhverjum, og þá hve mörgum. Millistéttin er lang-fjölmennust, og ef ekki á að bjarga henni af því að einhver getur þá keypt sér snjósleða, þá er réttlæti þessara ofvita verra en þeirra ranglæti.


mbl.is Tryggvi Þór svarar grein Gylfa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Sigurðsson

Afskaplega gott dæmi hjá þér Billi og ég er þér algerlega sammála.

Forsendurnar sem hagfræðingurinn Gylfi gleymir í umræðunni eru þær að ekki er spurt að millistéttinni í dæminu eins og þú gerir og er eftir allt sá hópur sem mikilvægast er að sé bjargað til að hagkerfið haldi áfram að rúlla.

Sigurður Sigurðsson, 20.3.2009 kl. 13:16

2 Smámynd: Kjartan Sigurgeirsson

Skemmtileg dæmi sem ættu að vera skiljanleg alveg niður í grunnskóla.  Ráðherrann ætti  að einbeita sér að því að bjarga heimilunum eins og hann og hirð hans var ráðin til, frekar en að skrifa "gamansamar" greinar í dagblöð

Kjartan Sigurgeirsson, 20.3.2009 kl. 13:17

3 Smámynd: Eiríkur Sjóberg

Einfaldlega frábært!

Eiríkur Sjóberg, 20.3.2009 kl. 13:21

4 Smámynd: Tómas Ibsen Halldórsson

Góður. 

Martröð yfirvalda virðist vera sú að ef til vill, hugsanlega og jafnvel einhver sem er ekki alveg á hvínandi kúpunni gæti grætt á öllu saman og komist út úr vandræðum sínum, það yrði skelfilegt, eða hvað ??  og hvað með það þó einhver gæti keypt sér vélsleða eða bara farið í sumarfrí, innanlands, í sumar, er það bara ekki í góðu lagi ??

Bestu kveðjur,

Tómas Ibsen Halldórsson, 20.3.2009 kl. 13:37

5 identicon

Mer sýnist dæmið snúast um það hverjir eigi að borga sýnar skuldir

Eg hygg að helmingur þeirra sem nú eru undir núllinu se fólk sem steypti sér í skuldir umfram getu hefðu sennilega aldrei getað staðið undir greyðslum mer finnst vanta greyningu á því hvað tekjur þeir verst settu hafa hef nú grun um að það séu  ekki þeir tekjulægstu (seðlabankinn hlítur að geta greynt það eins og allt anað).hinum fyrir óreiðuna

Eiga hinir sem fóru gætilega og hafa eignast eithvað með skynsemi að borga fyrir óreiðuna hja hinum finnst það nu varla mjög mikill jöfnuður

Held frú Jóhanna og hinn rammpólitíski viðskiptaráðherra ættu nú að fara skoða hvernig mikið af þessum skuldum er til komið.

Styð Tryggva og hans stefnu þar e þó eithvað um það að umbuna þeim sem eru að berjast við að borga af sinum suldum og standa í skilum.

Ef ekkert verður gert skeður tvennt atvinnulíf stöðvast og fólk missir atvinnu sína

Atgerfis og heiðarlegasta fólkið fer úr landi því það ser að her er ekkert gert fyrir þá sem reyna að standa við sitt og hinum hjálpað

info@skalafell.net (IP-tala skráð) 20.3.2009 kl. 13:40

6 identicon

Mjög skemmtileg lesning. Vandamálið er samt að þetta langa skemmtilega dæmi snýr ekki að kjarna fáránleikans í flötum niðurskurði. Í flata niðurskuðrinu fer bara 1/3 til þeirra sem á aðstoðinni þurfa að halda, en fyrir 2/3 eru þetta leikpeningar. Það sem er aflögufært fyrir RÍKIÐ í svona aðstoð ætti allt að fara "óskipt" til þeirra sem á því þurfa halda en ekki deilist á milli aðila (og fyrirtækja sem TÞH leggur reyndar til). Möo betra væri að heildar niðurfellingin - 6 millurnar- rynnu allar og óskipta til Tryggva í öllum dæmunum að ofan og vonandi fer þá enginn á hausnum.

deLux (IP-tala skráð) 20.3.2009 kl. 13:48

7 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Þessi dæmi eru ekki vel ígrunduð. Ef ekki er verið að gefa Tryggva eftir 2 milljónir getur Gylfi gefið Herberti og Þór 2 milljónum meira í aflátt til að laga þeirra stöðu án þess að tapa á þessum 15 milljóna kaupum sínum. Væntanlega hefur verðmat safnsins verið þannig að skuldabréf Tryggva væri 10 milljóna kr. virði, skuldabréf Þórs væri 0 kr. virði en skuldabréf Herberts 5 milljóna kr. virði. Ef allt gengur eftir eins og spáð var þá fer Gylfi út á sléttu og hvorki græðir né tapar á skuldabréfakaupunum. Ef hins vegar er gefin 20% niðurfelling þá fær Gylfi 8 milljónir frá Tryggva, 5 milljónir frá Herberti og 0 kr. frá Þór. Það gera 13 milljónir og hann hefur tapað 2 milljónum.

Það að gefa Tryggva eftir 2 milljónri eykur nefnilega ekki á nokkurn hátt möguleika Þórs eða Herberts til að standa við sínar skuldbyndingar. Sá afláttur er því hrein viðbót við þær 15 milljónir, sem áætlað var að tapaðist af kröfum Þórs og Herberts. Það er nákvæmelga þetta atriði, sem þeir, sem dásama hugmyndir Tryggva og Framsóknarflokksins virðast ekki geta skilið.

Ef Gylfi telur sig geta fengið meira út úr Herberti með því að gefa honum afslátt þannig að hann reyni að greiða restina frekar en að ganga að honum þá gerir hann einfaldleg það. Reyndar ganga lög um greiðsluaðlögun einmitt út á það. Það næst hins vegar ekkert meira út úr Herberti með því að gefa Tryggva afslátt af sínum skudum. Það er þess vegna, sem sú fullyrðing að hægt sé að nota varúðarniðurfærslu skuldasafna gömlu bankanna til að gefa flatan aflátt stenst ekki nokkra skoðun.

Þessi hugmynd Tryggva og Framsóknarflokksins er sambærileg við það að bregðast við því 10% atfinnuleysi, sem hér er með því að greiða atvinnuleysisbætur til allra verkfærra manna óháð því hvort þeir eru atvinnulausir eða ekki. Sú hugmynd lítur sjálfsagt vel út fyrir mörgum en gallin við hana er að hún er óhemjudýr og 90% af þeim útgjöldum gagnast atvinnulausum ekki neitt.

Sigurður M Grétarsson, 20.3.2009 kl. 13:59

8 identicon

Skemmtileg og góð uppsetning.

Ósammála deLux. Eitt af því sem mér finnst fínt við tillögu TÞH er að þessi leið getur af sér smæsta jaðarhópinn. Þ.e. hóp þeirra sem lausnin mismunar. Af hverju ætti fólk sem er í meðallagi slæmum málum ekki að fá niðurgreiðslu en bara fólkið sem hefur farið hvað glannalegast? Lausnin leysir líklega mestan vanda hópsin sem er í verstu málunum. TÞH hefur sjálfur sagt að sértækar aðgerðir ættu að bætast við fyrir þá sem enn hafa ekki við þetta fengið lausn sinna mála. Allir skuldarar (millistéttin) hefur orðið illa út í þessum efnahagshamförum. Hversu illa er í beinu hlutfalli við skuldsetningu og skuldsetnignarhlutfall. Allir fá því hlutfallslega jafnstóran björgunarhring.

Við skulum heldur ekki gleyma að við höfum ekki neitt nema slæma kosti í stöðunni. Tillaga TÞH er illskásti kosturinn í stöðunni að mínu mati. Nú er lag að slá til en ekki röfla þar til allt verður brunnið upp. Ímyndið ykkur lætin þegar 3.000 milljarðar brenna upp í gegnum gjaldþrot einstaklinga! Skv. Seðlabankanum þá eru rúmlega 42% heimila með neikvæða eiginfjárstöðu eða á leiðinni í þá stöðu.

Ég myndi segja þessar hugmyndir grunn að nýrri þjóðarsátt.

Borat (IP-tala skráð) 20.3.2009 kl. 14:05

9 Smámynd: Billi bilaði

Takk fyrir allar athugasemdir. 

Sigurður M., hvað má það kosta að komast að því hversu mikinn afslátt á að gefa hverjum og einum? Ef Gylfi ræður fólk í vinnu til að meta hvern og einn (og í rauninni eru Herbertarnir yfir 70% af þeim sem um ræðir), þá er hann búinn að reikna nákvæmlega hvað það má kosta hann, og út frá því býður hann í upphaflega lánasafnið.

Það er það sem þeir sem skíta út hugmyndina, án þess að útskýra til fulls fyrir okkur venjulega fólkinu, nefna aldrey.

Þessi dæmi eru algerlega byggð á dæmi Gylfa sjálfs, og voru sett upp til að benda á fáránlega einföldun hans á stöðunni - sem er ekki það sem fólk í minni stöðu þarf.

Billi bilaði, 20.3.2009 kl. 14:07

10 identicon

Það kom mér ekki á óvart að Sigurður M Grétarsson er samfylkingarmaður.

Hann sér nefnilega ekki neina lausn nema þá að setja á stofn eitthvað risabákn sem fer yfir skuldastöðu hvers heimilis. Og reynir svo að setja plástur á sárið hjá þeim sem eru verst settir samkvæmt fyrirfram skilgreindum kratískum forsendum.

Sú "lausn" mun annarsvegar hygla þeim háværu og freku og hinsvegar þeim sem hafa ekki miklar skattskyldar tekjur. Hvort sem það er láglaunafólk, fólk sem reiknar sjálfu sér laun eða þeir sem vinna svart.

Fólkið sem er svo óheppið að hafa ágætis tekjur, oft eftir langt nám með tilheyrandi skuldasöfnun verður hinsvegar að bíta í hið súra epli kratismans að borga allt uppí topp og fá sjálft tilbaka tekjuskertar vaxtabætur einu sinni á ári.

Barði Barðason (IP-tala skráð) 20.3.2009 kl. 14:20

11 Smámynd: Gunnar Ásgeir Gunnarsson

Snilldar færsla

Gunnar Ásgeir Gunnarsson, 20.3.2009 kl. 14:32

12 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Flott dæmi.

Það er reyndar aldrei talað um þann fámenna hóp millistéttarinnar sem ég tilheyri, sem tókst á fáranlegan hátt að selja eignir sínar rétt áður en skuldir fóru yfir verðmæti eignar. (þ.e. náðu að selja íbúð á undirverði til að koma sér á núllið áður en skuldirnar urðu meiri en mögulegt verðmæti íbúðar). Ekki að ég sé að kvarta, ég er reyndar mjög feginn að vera laus úr ánauðinni.

Höskuldur Búi Jónsson, 20.3.2009 kl. 15:18

13 Smámynd: Billi bilaði

Já, Höski. Ég er búinn að vera með á sölu síðan í janúar 2008. Tveir hafa skoðað og engin tilboð. Af hverju útlistar ríkisstjórnin ekki hvernig hún ætlar að bregðast við því, í stað þess að skjóta blint niður tillögur sem gætu látið efnahagslífið hrökkva í gang.

Billi bilaði, 20.3.2009 kl. 15:35

14 Smámynd: Ólafur Gíslason

Það vantar alveg að gera ráð fyrir að Gylfi er greinilega mikill athafnamaður og tók þátt í góðærinu og skuldar því sjálfur 40 milljónir og fær því 8 milljónir felldar niður í öllum tilfellum því allar hans tekjur eru fjármagnstekjur og munu aldrei skerða neitt frekar en fyrri daginn nema ef hann er orðinn eftirlaunaþegi og/eða öryrki.

Ólafur Gíslason, 20.3.2009 kl. 15:38

15 identicon

Það þýðir ekki að einblína á skuldirnar án þess að líta á eignir líka.  Þess vegna verður flatur niðurskurður alltaf vitlaus.  Fólk með miklar eignir á móti skuldum þarf að losa um eignir en ekki fá niðurfellingu.  Ég þekki marga sem hafa selt eignir, jafnvel á niðursettu verði til að lækka skuldirnar.  Það fólk bíður nú til að sjá hvort ekki er hægt að láta ríkið (hina) taka 20% af áður en þeir borga rest.  Bara umræðan um þessa vitleysu kemur í veg fyrir að fólk leiti eðlilegra lausna.

Greiðslujöfnunarleiðin er eina vitræna leiðin í bili hið minnsta.  Það veit enginn hvernig gengistryggðu lánin standa eftir 1-3 ár.    Húsnæðisverð mun líka jafna sig eftir einhver ár.   Þegar upp er staðið skiptir mismunur eigna og skulda máli en ekki hvort þú þarft að borga af langtíma láni í ár í viðbót.  Það þýðir ekki að leita samtímalausna á langtíma vandamáli. 

Borgar (IP-tala skráð) 20.3.2009 kl. 16:13

16 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Borat. Þó stór hluti heimils sé nú með neikvæða eiginfjárstöðu í miðri kreppu er ekki þar með sagt að svo verði þegar kreppan er frá. Mér finnst það heldur ekki vera illkásti kosturinn, sem kostar 600 til 800 milljarða og megnið af þeirri aðstoð fer til fólks, sem ekki þarf á neinni aðstoð að halda. Skattahækkanir til að vega það upp gerir yfirgnæfandi meirihluta þjóðarinnar verr staddan en ef ekki hefði verið gripið til þeirra aðgerða.

Billi bilaði. 20% niðurellingin leysir aðeins vanda lítils hóps þeirra skuldara, sem eru nú í vandræðum. Það er þess hluta, sem ræður við 80% af sínum skuldum en ekki 100%. Það þarf eftir, sem áður að fara yfir stöðu hvers og eins og því er ekki verið að spara neinn kostnað, sem heitir getur með þessari aðferð.

Barði Barðason. Það mun þurfa að fara yfir stöðu hvers og eins skuldara, sem ekki ræður við sínar skuldir þrátt fyrir 20% niðurfellingu. Þessi niðurfelling er því ekki að minnka neitt bákn við slíkt. Það er engin að tala um lausnir, sem hygla þeim háværu og freku heldur er hægt að fara í margar aðgerðir, sem framkvæmdar verða samkvæmt skilgreindum reglum og gilda jafnt fyrir alla. Það er nú þegar verið að gera margt í þá veru og enn meira er í farvatninu.

Björn S. Lárusson. Hvers vegna ættu skattgreiðendur, greiðsluþegar lífeyrissjóða eða innistæðueigendur í bönkum og sparisjóðum að taka á sig byrgðar til þess eins að erfingjar geti erft skuldlausar íbúðir? Ef lánþegi ræður ekki við lán, sem á eftir að greiða af í 20 ár en hann getur ráðið við það ef eftirstöðvum er dreift á 40 ár, af hverju ætti þá ekki frekar að gera það heldur en að láta einhvern annan greiða hluta lánsins?

Sigurður M Grétarsson, 20.3.2009 kl. 16:15

17 Smámynd: Billi bilaði

Sigurður: Það er rétt að 20% (eða hvaða prósenta sem þú nefnir) bjargar aðeins þeim sem falla undir kúrfuna. Því þarf að reikna, og það strax, hvar á að setja kúrfuna svo að hægt sé að bjarga sem flestum. Ég sé ekki að nein sú vinna sé komin í gang til að meta það hvar t.d. ég sé í þessari kúrfu - en því lengri tími sem líður, því meira þarf til að bjarga mér (ef ég þarf þá björgun).

Það að fara í rólegheitum að skoða hvert mál fyrir sig, þýðir jú það að ekki þarf að skoða þá sem verða fluttir úr landi þegar að þeim kemur. Það virðist vera það sem flokkarnir vilja. Allir flokkarnir sem skipta máli! Svei þeim öllum.

Billi bilaði, 20.3.2009 kl. 16:46

18 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Sigurður M. Grétarsson, það er enginn vandi að útfæra tillöguna þannig að fólk með "ofmiklar" tekjur verði skilið út undan.  Það sem ég skil samt ekki:  Af hverju hafa þeir sem aðhyllast skoðun þína ekki mótmælt því að "ofríkum" var bjargað, þegar ákveðið var að bjarga öllum innistæðum?  Niðurfærsluaðferðin "kostar" á bilinu 250 - 300 milljarða.  Björgun innistæðna kostaði ekki undir 600 milljörðum.  Síðan má ekki gleyma að rúmlega 200 milljörðum var dælt í peningasjóði til að draga úr tapi þeirra.

Málið er að ekkert af þessu "kostar" íslenska skattborgara neitt.  Þetta er allt í boði tryggingafélaganna sem tryggðu lán íslensku bankanna.

Marinó G. Njálsson, 20.3.2009 kl. 17:57

19 identicon

> Forsendur:

>30 milljóna krónu kröfur voru keyptar á 15 milljónir með von um að sem mest innheimtist.

Þessi forsenda er hæpin. Enginn selur kröfur á 50% afslætti án mats á hversu mikið er hægt að innheimta.  Og ef Geir reynir að selja Gylfa vini sínum kröfur á of miklum afslætti, þá er fara kröfuhafar Geirs í mál, og eignir Gylfa eru frystar.  

Dæmi A:

Tryggvi er ríkur og borgar 8 milljónir (og kaupir sér eitthvað skemmtilegt).

Þór er fátækur og borgar ekkert.

Herbert er í millistéttinni (sem flestir eru í) og nær að bjarga sér og borgar 8 milljónir.

Gylfi fær því greiddar 16 milljónir og hefur grætt 1 milljón.

Nei, Gylfi hefði aldrei getað keypt kröfurnar á 15 mill.  Ef  að Tryggvi er borgunarmaður fyrir 10 mill, og Þór er borgunarmaður fyrir 8, þá hefðu kröfurnar kostað 18.  Hann er því búinn að tapa 2 mill.

Dæmi B:

Herbert er í millistéttinni (sem flestir eru í) og fer á hausinn með frystar eignir og borgar ekkert.

Gylfi fær því greiddar 14 milljónir og hefur tapað 1 milljón. Áhættan var því ekki þess virði.

Bætum við forsendu: Herbert hefði getað borgað ef hann hengi 20% niðurfærslu

Og hvers vegna ætti Gylfi að frysta eignir Herberts, reka hann á hausinn og standa uppi með ekkert?  Er hann evil?  Keypti hann skuld Herberts bara í þeim tilgangi að reka hann á  hausinn. Skuld Herberts er 8 mill króna virð, Gylfi þurfti að borga 8 mill fyrir hana.  Dýrt tómstundagaman.

Dæmi C:

Herbert er í millistéttinni (sem flestir eru í) og fer á hausinn eftir að hafa borgað 5 milljónir.

Spyr aftur, hvers vegna ætti Gylfi að fara fram á nauðasölu eftir að Herbert er búinn að borga 5 mill?  Hann hlýtur að vilja lengja lánið og fá hina 5 mill, og Herbert heldur eftir húsinu. 

Í dæminu í mogganum var Viðskiptaráðherra okkar að setja upp einfalt dæmi um hvaða áhrif yfir lýst stefna eins frambjóðanda gæti haft.  Gerði það til að koma á framfæri punkt um þessa stefnu. 

Magnús (IP-tala skráð) 20.3.2009 kl. 19:36

20 identicon

Gylfa saga og Herberts

 

Gylfi hét maður. Hann átti allnokkurt  fé sem hann vildi auka með skjótum hætti og ákvað því að hefja lánastarfsemi. Hann nýtti fé sitt  til útlána en fékk að auki lánsfé hjá hinum og þessum til að hafa meira úr að moða. Gylfi hafði mjög greiðan aðgang að lánsfé sem hann endurlánaði með góðum hagnaði til þeirra sem til hans leituðu. Vinir Gylfa og vandamenn fengu sérstaka fyrirgreiðslu hjá honum. Þeir fengu lánsfé eins og þeim sjálfum sýndist og Gylfa nægði drengskaparheiti þeirra um endurgreiðslur.  Gylfi þekkti eðlilega ekki drengskap vandalausra svo hann lánaði þeim ekki nema með tryggum veðum í fasteignum eða öðru áþreifanlegu.  

 

Lánastafsemi Gylfa var háð sérstökum leyfum yfirvalda sem kröfðust þess að eignir Gylfa væru að andvirði ekki minna en 8% af skuldum hans. Mikil vöxtur í útlánum kallaði á miklar og auknar lántökur af hálfu Gylfa, sem verður að sýna fram á að eignir hans vaxi að andvirði til að haldast yfir 8% af skuldum. Gylfi mat vináttu vina sinna mikils og því meira sem skuldir þeirra voru við hann. Hann vissi sem var að drengskapur var gulls í gildi. Hann brá því á það ráð að bókfæra vináttu og drengskap vinna sinna sem eignir.

 

Dag einn flaug óheillakráka yfir Gylfa þar sem hann sat grandalaus og taldi fé sitt. Flug óheillakrákunnar leiddi til þess að lánsfé hvarf að mestu af sjónarsviðinu. Gylfi greip í tómt þegar hann ætlaði sækja nýtt lánsfé til að standa skil á eldri lánum. Hann  náði ekki að standa í skilum með lán sín og komst í greiðsluþrot.

 

Yfirvöld uppgötvuðu sér til undrunar að mikil óráðssía var í allri starfsemi Gylfa. Ákváðu þau þá þegar að lán Gylfa til vandalausra skyldu seljast úr þrotabúinu í hendur Herberts, sem var yfirvöldum þóknanlegur. Yfirvöld ákváðu að hæfilegt kaupverði slíkra lána væri 50% af virði þeirra. Yfirvöld ákváðu jafnframt að öll lán til vina og vandamanna Gylfa yrðu áfram í þrotabúi hans, enda væru þau verðlaus.

 

Segir nú af þeim Tryggva og Þór sem voru vandalausir við Gylfa og höfðu skuldað honum 10 milljónir hvor, sem tryggð voru með veðum í fasteignum þeirra. Tryggvi var nokkuð vel stæður með góðar tekjur. Þór var hins vegar mjög illa staddur og var fyrirséð að hann gæti ekki staðið í skilum af láni sínu.

 

Herbert átti nú lán þeirra Tryggva og Þórs sem hann hafði greitt samtals 10 milljónir fyrir. Herbert var glaður í bragði þrátt fyrir bága stöðu Þórs. Tryggvi gæti hæglega staðið skil á sínu láni sem væri 10 milljóna virði. Óvissa ríkti um það hversu stóran hluta lánsins til Þórs hann yrði að afskrifa. Fasteignaverð hefði illu heilli lækkað mikið svo fasteignaveðið sem Þór lagði til sem tryggingu fyrir láninu gæti farið niður í 5 milljónir . Herbert gerði því ráð fyrir að fá 15 milljónir út úr þessum lánum sem hann keypti á 10 milljónir. Hagnaður hans yrði 50% og eigið fé hans mynd því aukast hratt og tryggilega.

 

Þar sem Herbert situr og reiknar gróða sinn fær hann skilaboð frá yfirvöldum um að hann verði að fella niður 20% af öllum skuldum sem hann keypti með 50% afslætti.

 

Herbert reiknaði gróða sinn að nýju. Skuldir Tryggva lækkuðu í 8 milljónir sem Tryggvi ætti enn síður í vandræðum með að standa skil á en upphaflegu 10 milljónunum.  Skuldir Þórs lækkuðu einnig í  8 milljónir. Það breytti hins vegar litlu fyrir Þór þar sem fyrirséð var að hann gæti ekki staðið skil á þeim.  Eftir sem áður fengist í versta tilfelli ekki meira en 5 milljónir fyrir lánið til Þórs með því að ganga að veðinu sem var lagt til tryggar þess. Herbert reiknaðist til að hann fengi 13 milljónir fyrir lánin tvö. Hagnaður yrði ekki nema 30% og eigið fé hans mynd ekki aukast jafn mikið og hann hafði áður talið.

 

Herbert varð leiður yfir þessu og sá að hann yrði að fresta því að endurnýja snekkjuna sína.

Heiðar Jón Hannesson (IP-tala skráð) 21.3.2009 kl. 14:48

21 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Heiðar Jón. Þessi dæmisaga þín er út í hött í þessu samhengi. Herbert hefði aldrei fengið lánasafnið úr þrotabúini á 10 milljónir er reikna hefði mátt með að hann gæti innheimt 15 milljónir. Það hefðu nýrir eigendur krafnanna það er þeir, sem lánuðu Gylfa á sínum tíma, samþykkt. Hann hefði því þurft að greiða 15 milljónir fyrir safnið og hefði því tapað 2 milljónum við það að vera þvingaður til að gefa Tryggva 20% aflátt.

Það skipir engu máli hversu oft Framsóknarmenn og Tryggivi reyna að ljúga því að það sé svigrúm í varúðarniðurfærslu skuldabréfasafnanna til að gefa afslátt til þeirra, sem eru borgunarmenn fyrir sínum skuldum. Sú niðurfærsla er til að mæta útlánatapi til þerra, sem eru ekki borgunarmenn fyrir sínum skuldum. Aflátatur til annarra er hrein viðbót við þann kostnað.

Marinó. Ákvörðunin um að tryggja allar bankainnistæður var tekin þegar menn voru enn að vanmeta alvarleika kreppunnar til að reyna að bjarga bankakerfinu. Þá töldu menn að ríkið þyrfti ekki að greiða mikið út af þeirri ákvörðun þegar upp væri staðið og því væri þetta verjandi til að halda fjármálakerfinu gangandi. Það er alltaf hægt að setja sig á háan hest eftirá þegar ljóst er að ákvörðunin hefur sennilega ekki verið skynsamleg. Þetta var þó ákvörðun, sem þurfti að taka strax með takmarkaðar upplýsingar í höndunum og því ekki stórmannlegt að setja sig á háan hest og segja að maður hefði sjálfur tekið aðra ákvörðun. Við skulum hafa það í huga að ef þetta hefði ekki verið gert hefði allt bankakerfið með sparisjóðina meðtalda farið á hliðina þegar allir hefðu farið að hamstra fé sitt út úr bönkum og sparisjóðum. Hvar stæðum við þá núna?

Hvað það varðar að taka á skuldavanda heimila er um allt annað að ræða. Þar höfum við mun betri tíma til að taka á málum. Við þurfum fyrst og fremst að aðlaga greiðslubyrði og greiðslugetu meðan kreppan varir og þegar ástandið batnar með betra atvinnuástandi og virkum  húsnæðismarkaði getum við farið að taka á málunum til lengri tíma. Ákvörðun um það hversu mikinn aflátt er hægt að veita af lánum á kostnað skattgreiðenda hlýtur líka að vera bundin þvi hversu mikin skell skattgreiðsendur þurfa að taka vegna Icesaave reikninganna. Því verða að mínu mati allar ákvarðanir um það að bíða þangað til það er komið á hreint.

Magnús. Ef Herbert getur borgað með því að fá 20% niðurfellingu og það er þá hærri upphæð en fæst fyrir húsið hans þá verður það væntanlega það, sem skuldaeigandin ákveður að gera. Það mun hins vegar aldrei auka greiðslugetu hans að Tryggvi fái einhvern afslátt. Afsátturinn til Tryggva er því beint tap fyrir skuldafeiganda umfram annað tap hans vegna þeirra viðskiptavina sinna, sem ekki geta greitt skuldir sínar.

Sigurður M Grétarsson, 21.3.2009 kl. 15:13

22 identicon

Sigurður: Dæmisaga mín er ætlað að draga fram helstu þætti í þessa máls. Mér sýnist hún einmitt gera það. Þú hnýtir strax í 50% afsláttinn sem er jú grundvallar forsenda í málinu og því megin atriði í sögu minni.  Ég hef skilið málflutning framsóknarmanna og Tryggva Þórs þannig að þetta væri frumforsenda þeirra. Ef sú forsenda er ekki rétt þá breytast að sjálfsögðu afleiðingarnar af 20% niðurfellingu skulda.

Heiðar Jón Hannesson (IP-tala skráð) 21.3.2009 kl. 16:07

23 identicon

Sigurður:  Einmitt !!! :-)

Magnús (IP-tala skráð) 21.3.2009 kl. 17:15

24 Smámynd: Offari

Það er gott að heyra að Billi sé hrifin af tilögum Framsóknarflokksins.   Þakka þér fyrir að útskýra þetta skiljanlega því því miður virðast fáir skilja þessa einföldu leið.

Offari, 21.3.2009 kl. 18:17

25 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Heiðar Jón. Það er rétt að það er grundvallarforsendan í tillögu Framsóknarflokksins og Tryggva Þórs, að hægt sé að nota varúðrhiðurfærslu skulda gömlu bankanna til að gefa afslátt á línuna. Ef sú kenning á að ganga upp þá þarf þessi aðgerð að auka greiðslugetu þeirra, sem ekki teljast geta greitt sínar skuldir að fulli í dag, á móti þeim afsláttum, sem gefnir eru til þeirra, sem geta greitt meira en 80% af sínum skuldum. Sú forsenda stenst engan vegin enda eykur þessi aðgerð ekki að neinu leyti þá upphæð, sem næst frá þeim, sem ekki geta greitt sínar skuldir að fullu. Afslættir til þeirra, sem geta greitt sínar skuldir eru því hrein viðbót við þann kostnað, sem hlýst af útlánatapi til þeirra, sem eru ekki borgunrmenn fyrir sínum skuldum.

Offari. Það eru því miður ekki þeir, sem "ekki sklja þessa einföldu leið", sem vantar skilning á málinu heldur þvert á móti. Það eru þeir sem "skilja þessa einföldu leið", sem vantar skilning á að hún gengur ekki upp. Hún mun kalla á skattlagningu á hverja fjögurra manna fjölskyldu upp á 8 til 10 milljónir kr. til að fjármagna dæmið.

Hér gefur að líta grein í Herðubreið um þetta mál. http://www.herdubreid.is/?p=370

Í þessari grein koma hin fleygu orð. "Ef eitthvað hljómar of vel til að vera satt, þá er það líklega ekki satt."

Þessi orð smellpassa við þessa tillögu Framsóknarflokksins og Tryggva Þórs.

Sigurður M Grétarsson, 22.3.2009 kl. 10:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband