Færsluflokkur: Ljóð

Spurning varðandi fyrirtækjastjórnendakönnunina

Sambærileg könnun sem gerð var fyrir samtök atvinnulífsins (sjá hér: http://www.sa.is/frettir/almennar/nr/5023/) virðist vera nokkurn vegin jafn dökk og hjá okkur „neytendum“. Ég var þó aðeins að skoða bjartsýnistölurnar í þeirri könnun, og eftirfarandi er ekki alveg að dansa í mínum kolli:

„Þeir örfáu stjórnendur sem telja aðstæður góðar starfa í sjávarútvegi og í iðnaði en í öðrum greinum telur enginn að aðstæður séu góðar.“ ... „ Í upphaflegu úrtaki voru 418 stærstu fyrirtæki landsins (miðað við heildarlaun) og var svarhlutfall var 44%“

1% af 44% af 418 reiknast mér til að séu 1,8392 fyrirtæki. Ætli þetta séu þá ekki stjórnendur tveggja fyrirtækja sem eru bjartsýnir, og þar af annar þeirra í sjávarútvegi og hinn í iðnaði?

Einnig: eru stjórnendur þeirra 56% fyrirtækja sem engin svör berast frá á þessari sömu línu, og má þá reikna með að öll sjávarútvegsfyrirtæki svari eins og þetta eina sem svaraði jákvætt, eða eru 99% þeirra ekki eins bjartsýn og þessi eini?


mbl.is Íslendingar svartsýnir í árslok
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland lækkar á spillingarleysislista

Fyrirsögnin er öfug á mbl, því að spilling hér er nú talin meiri en áður.

 

Á Íslandi engin fannst spilling

því innmúruð var hún og falin,

en núna er horfin sú hilling

þó hérna sé fyrirsögn galin.


mbl.is Spillingareinkunn Íslands lækkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Með sverðið í annarri hendi og plóginn í hinni"

Bókin "Með sverðið í annarri hendi og plóginn í hinni" hefst á því að Jónas frá Hriflu talar á Ungmennafélagsfundi um nákvæmlega þetta.

1907 var óðauppgangur. 1908 kom kreppa. 1909 voru auðmenn að kaupa ofurskuldsetta út úr húsnæði sínu á hrakvirði, sletta á það málningu, og selja aftur með umtalsverðum hagnaði.

Á þessu slær Jónas sér fyrst upp.

Nú er flokkurinn sem hann stofnaði búinn að koma þjóðinni í nákvæmlega sömu stöðu og Jónas barðist gegn. Hans markmið í pólitík var að sameina alla hægri menn þannig að það væri auðveldara að berja á þeim.

Hvenær barði framsóknarflokkurinn síðast á hægri mönnum. Mig rekur ekki minni til þess.

Og nú er vinstri stjórn, sem ætti að kunna þessa sögu utanbókar. Nei. Annað hvort vita þau ekki neitt, eða vilja ekki vita neitt. Að minnst kosti setja þau kíkinn viljandi fyrir blinda augað.

Ég hef örgustu skömm á bæti framkvæmda- og löggjafarvaldinu. Svei þeim.

 

Von.

Sílspikaðir siðblindingjar settust á þjóð

sem flaut að ósi feig.

Eignaðist þá elítan hvern einasta sjóð

og Ísland síðan yfir meig.

Í einum skildi drekka þann teyg.

-

Fáir af þeim fengu beyg

-

en framtíðin í valinn þá hneig.

 

Ráðamenn sem ríkið höfðu rifið í tvennt

festu á þeim ást.

Áfram héldu ótrauðir þó á væri bent

að af þeim myndi þjóðin þjást.

Já, þingið sem og stjórnin hér brást.

-

Ættum við nú um að fást?

-

Eigum við við þá nú að kljást?

 

Von, það er von,

ennþá von,

um að þjóðin bjargist,

um að þingið bjargið,

enn er von!

 

Sjálfræðið er siðblindingjar settu í pant

með viti vernda má.

Ábyrgð bera af útrás þeir sem einskis var vant,

þeir fyrir þessu fá að sjá.

Í fjármagn þeirra ætti að ná.

-

Allir hérna þekkja þá,

-

þeirra verður framtíðin grá.


mbl.is Auðmenn græða á uppboðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Minning

. 

Það sem þú lagðir til lífsins í hugsun og verki

lifir með þeim sem þig elskuðu bæði og virtu.

Þú sem varst huggarinn mildi og móðurinn sterki

megnar það ennþá að veita í líf okkar birtu.

 

Víst er það erfitt hjá þeim sem að skína hvað skærast,

skuggann að greina sem felur sig djúpt inni í hjarta.

Léttvægt oft sýnist er ástvinir undan því færast,

á þó í lífinu gefi, við nokkurn að kvarta.

 

Þar sem þú lagðir til lífsins í hugsun og verki,

lést undan þunglyndisórum sem gleðina tróðu,

tókstu frá þeim sem þér treystu, en greindu nein merki,

trúnaðinn bæði og loforðin sterku, en hljóðu.


(Og það er leiðin til) að sigra heiminn!

 .

Að hálfu leiti heldur þú í ferð,

og hittir fyrir sjálfan þig við markið

og þó að lífið lúti að fyrstu gerð

leiðina þú sjálfur kýst í harkið.

 

Og ef þér tekst að tryggja þína vist

í tilverunni, nokkuð fram á aldur,

og fáir ekki af öllum sénsum misst,

að öðru lífi kannski þú ert valdur.

 

Og takist þér að tryggja þetta líf,

það tækifærin hljóti öll hin bestu,

og finni hjá þér frelsi bæði og hlíf,

þú færð þá gjöf er alla skiptir mestu.

 

Þó mörgum virðist það ei þykja frétt

og þumbist við og jafnvel dragi seiminn,

þá trúi ég að telja megi rétt

að tekist hafi þér að sigra heiminn.


Meira en 100% hægari?

Heillaður ég hlusta á

heillakarlinn Bíber,

og tíma græði talsvert þá;

tímavél ég loksins á!


mbl.is Hægur Bieber hljómar eins og Sigur Rós
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Steingrímur reynir á þrískiptinguna

Fari svo að þessi illa ígrundaði héraðsdómur verði staðfestur, (sem gengur þá þvert á síðustu niðurstöðu fjöl- og sérskipaðs hæstaréttar, þar sem fleiri mál voru tekin saman og hugsað breytt um málið), þá er Steingrímur hér með búinn að dæma þá niðurstöðu sem sérpantaða. (Jafnvel þó að Sigurður Líndal, sá merki maður hafi (að mínum dómi) misstigið sig með því að segja dóminn vel undirbyggðan. Þeirri skoðun mun ég ekki hvika frá, nema að Sigurður skrifi ítarlega grein um það hvernig dómurinn standist neytendarétt.)

Ætli hæstiréttur að sýna fram á að að Dómsvaldið sé í raun ein af grunnstoðum lýðræðis á íslandi, þá, hér með, geta þeir ekki staðfest þennan dóm óbreyttan.

Það er þá líka á hreinu að þetta mál (eða önnur sambærileg) fara til Evrópudómstólsins, þar sem verður reynt á lögin frá 1995 um neytendavernd.

Steingrímur styður við banka

sem stálu frá þjóðinni.

Hæstiréttur skal hanka

og halda yfir glóðinni

lántakendum sem létu

lögbrjóta plata sig;

því græðgiskarlarnir grétu

gróðans mikla hnig.

.

Skjaldborgin alltaf skýrist,

skelfing er hana að sjá.

Stjórnin í höm þar hýrist

og handvaldir vinir hjá.

Þá sem að þangað sækja,

en „þjóðinni“ ey teljast með,

skal hrópað á og hrækja,

sem hver önnur fórnarpeð.

.

Lögbrotin skulu líðast

langtímaþjófunum

sem tala nú sem tíðast

um tap hjá þeim bófunum

sem vinstristjórn muni velta

ef verji hún ekki þá

sem heimili landsins helta

og heimta að mega flá.

.

En þetta er síðasta sinnið

að svo skipist málin hér.

Þó kjósenda misjafnt sé minnið

er málstaðurinn nú svo ber

að aldrey mun vinstri villan

veljast í stjórn á ný,

og helvítis hægri grillan

mun heiðra sitt leiguþý.


mbl.is Staðfesting héraðsdóms mun eyða óvissu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ort í tilefni þeirra frétta að Bandaríkjamenn heyi nú sitt lengsta stríð frá upphafi

Það stríð sem þú háðir var stórkostlegt sjónarspil

og stóð yfir lungann af bestu árum þínum,

við óvin sem stundum virtist ey vera til

en varði þó stöðugt land sitt með byssum og mínum.

.

Hver orrusta reyndi til fulls á þrek þitt og þor

og þó að í upphafi styrk þinn það virtist auka

tók síþreytan smátt og smátt yfir og ójafnt varð skor,

að endingu varð það helvíti hvern dag að þrauka.

.

Að lokum þú hörfaðir, fyrst var það skref fyrir skref.

Er skelfingin greip þig þá fæturnir tóku sprettinn.

Þú stöðvaðir ey meðan nályktin lék um þitt nef,

til neins kom nú sannfæring þín, að þú værir með réttinn.

.

Nú situr þú einn inni í rammgerðu virki sem var

og vonar að óvinur þinn ekki leið þangað finni.

Þú færð ekki hvílst, fyrir aldur fram útbrunnið skar,

og óskar þess heitast að stríðinu bráðum linni.


mbl.is Dauðasveitir í Afganistan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flótti frá flokknum?

Fyrir ári síðan vildu meira en sautjánhundruð manns taka þátt í að kjósa sér formann.

Nú nenntu því ekki nema rétt rúmlega níuhundruð.

Og um það bil eitthundrað þeirra fóru þá heim og nenntu ekki að kjósa sér varaformann.

Sum sagt. Rétt rúmlega fimmtíuprósent heimtur í formannskjörið eftir ár í stjórnarandstöðu við eina klaufalegustu stjórn lýðveldistímans.

Ætli evrópuskoðanirnar hefðu ekki haft annan blæ ef flokkurinn væri ekki að fullkomna umbreytingu sína í einangrunarsinnaðan frjálshyggjuöfgaflokk?

 

Brostinn er flótti í flokkinn

því fleytan er lek sem hrip.

Götóttan settu í sokkinn

og sjófært þá telja skip.


mbl.is Þrengir ekki stöðu Sjálfstæðisflokksins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afstaða Más og Gylfa segir okkur skýrt...

... að þeir reikni með því að á Íslandi verði viðvarandi verðbólga, og að þeir ætli ekkert að gera í því að halda hér niðri verðbólgi.

Hér þyrftu þeir að taka sér Besta Flokkinn til fyrirmyndar og hugsa í lausnum, en ekki vandamálum.

Lausnin er einföld. „Róum að því öllum árum að reka hér þá hagstjórn að verðbólga verði lítil sem engin. Þá mun hinn afdæmdi verðbreytingarþáttur gengislánanna engu máli skipta.“

En, nei. Svo langt nær ekki hugsun þessara ágætu manna. A.m.k. nær hún ekki svo langt að komast út um munn þeirra.

Mín ósk til þeirra beggja er því: Vinsamlegast segið af ykkur strax, og leyfið öðrum að komast að stjórninni sem áhuga hafa á því að leysa vandamálin, en ekki tala þau upp.

 

Afstaðan er alveg skýr:

„almenningi blæða skal

og hagnast skulu helgar kýr“

hugnast lítt mér þetta tal.


mbl.is Taka stöðu gegn almenningi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband