Já, pólitík, já pólitík, í pólitík alla ég svík...

Er Guðni á Stormskeri strandar

og stuðningur flokksmanna dvín

hann þrammar, með taugarnar þandar,

til þeirra sem skilja hve brýn

er þörfin á hjálpfúsum hækjum

sem höltum fá bjargað í var,

og lofar með klækjum að leysa úr flækjum

sem læknirinn skapaði þar;

og þannig nær framsókn að festa sér völdin

sem fóru með Geysi og REI

og framsókn nú hækka mun fasteignagjöldin

svo fyrtist ei biðlaunagrey,

og framsókn nú hækka mun fasteignagjöldin

svo fyrtist ei biðlaunagrey.

Já, pólitík, já, pólitík, í pólitík alla ég svík.

Já, pólitík er engu lík, í pólitík alla ég svík.

 

Við Óskar fékk enginn að tala

uns Ólafi kastað var burt

en Valhöll þá vaknaði úr dvala

og viðræður gengu sem smurt

er rykfallinn samning þau rýndu

sem ranglega slitu þau fyrr

og höfðingskap sýndu er Hönnu þau krýndu

og halda að burtu sé styrr;

en kjósendur hafa nú klækina litið

og kannski þeir muni það næst

hve borgarstjórn hefur í buxurnar skitið,

já, burtu það varla nú þvæst,

hve borgarstjórn hefur í buxurnar skitið,

já, burtu það varla nú þvæst.

Já, pólitík, já, pólitík, í pólitík alla ég svík.

Já, pólitík er engu lík, í pólitík alla ég svík.


mbl.is Ólafur: Blekktur til samstarfs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Indriðason

Góður, eins og venjulega.  En... við hvaða lag á að syngja þetta?

Einar Indriðason, 15.8.2008 kl. 19:28

2 Smámynd: Billi bilaði

"Þórður sjóari". ("Já, sjómennska, já, sjómennska, já sjómennskan er ekkert grín.")

Billi bilaði, 15.8.2008 kl. 19:36

3 Smámynd: Einar Indriðason

Já..... Þetta þurfum við að prófa!

Einar Indriðason, 15.8.2008 kl. 19:53

4 Smámynd: Heimir Tómasson

Góður eins og alltaf, Billi minn.

Heimir Tómasson, 20.8.2008 kl. 04:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband