Minning

Hjónin

Kristján Jóhannsson frá Skjaldfönn, Nauteyrarhreppi, (f. 25.09.1919 d. 17.08.2007)

og

Guðrún Guðjónsdóttir frá Fremstuhúsum, Dýrafirði, (f. 29.10.1920 d. 14.02.2007)

voru jarðsett í dag í Gufuneskirkjugarði, á 44 ára brúðkaupsafmælisdegi sínum.

 

~~~~~ ~~~~~

 

Kjarnyrtur strákur á kraftmiklum bæ,

við kindur þú lærðir til verka.

Í Skjaldfannardalnum við dranganna blæ

þú drakkst í þig lífsviljann sterka.

 

Lítill varð skólinn og lítið var sest,

við lestur þú stundum þó undir.

Laxness og Steinarr þér líkaði best

og ljóðmæli oftast þú mundir.

 

Um tvítugt að heiman þú heldur af stað,

til höfuðstaðs Vestfjarða kemur,

og kratarnir eru þar komnir á blað,

af körlum þeim eitthvað þú nemur.

 

Reykjavík sogar þig síðan á brott,

þú sinnir þar margskonar störfum.

En ekki þér líkar við auðvaldsins glott,

þú upp ríst með verkmönnum djörfum.

 

Í verkalýðsbaráttu beittir þú þér

sem beinskeyttur Dagsbrúnarmaður,

og sögur af átökum sagðir þú mér,

sigrum þú fagnaðir glaður.

 

Og frjálslyndir vinstrimenn fengu þitt lið,

þið frelsi og jafnrétti studduð.

Gegn órétti börðust, það aldrei fékk grið,

þið ótrauðir brautina rudduð.

 

Þú fjölskyldu eignast, þá farnast þér vel,

í flestu þið samstiga eruð,

í blíðu og stríðu, ef bar þar að él

þá bökunum saman þið snéruð.

 

Í fríum til Vestfjarða fóruð þið æ,

og flestum þið hjálparhönd réttuð.

Og sveitanna stemmning var sísprottið fræ

og sálin varð andlega mettuð.

 

Í góðvinahópi var gáski við völd

og gamanmál vöktu oft hlátur.

Sögur þú þuldir oft seint fram á kvöld

og sannlega varstu þá kátur.

 

Er Djúpmenn svo byggðu sér Djúpmannabúð

drjúgt var þitt framlag í vinnu.

Að öllum þeim verkum af alúð var hlúð

sem öðru er veittir þú sinnu.

 

Þið sumarhús byggðuð í sólbjörtum reit,

af samvisku ræktið þið garðinn.

Gróðrinum íslenska gáfuð þið heit,

í gleði þið tókuð út arðinn.

 

Og landsamband eigenda lóða í sveit

þú leiðir uns barnsskór þess slitna.

Ef stórt varð í sjóinn þú sigldir í beit,

samferðamenn um það vitna.

 

Nú sagan er búin, og sorgin er sterk,

ég sakna míns réttsýna pabba.

Er hugsa ég til þín ég kökk fæ í kverk;

þú kenndir mér fleir'en að labba.

 

~~~~~ ~~~~~

 

Í Fremstuhúsum fæddist þú,

fjörug stelpa númer þrjú,

en systkinunum fjölgaði nú fljótt.

Ljúf var æskan, leikir, puð,

lofsunginn var Drottinn Guð,

við orgelspilið aftaninn leið skjótt.

 

Í Núpsskóla til náms þú gekkst,

og næga vini þar þú fékkst,

því hláturmildin heillað marga fær.

Í vinnumennsku valdist þú,

og varst í þínum störfum trú,

en lífsins krókar leiddu suður mær.

 

Í barnagæslu byrjar þú

og brautin, hún var ráðin nú,

í framhaldsnám þú fórst hjá Sumargjöf.

Þar vinabönd þér veittust kær,

sem varðveittir þú hjarta nær,

á lífsstarfi samt löng varð ekki töf.

 

Í forstöðu þú fannst þig brátt

og fumlaus varst á allan hátt,

en eitthvað virtist upp á vanta þó.

Þú heillað náðir hörkumann,

af heilindum þér síðan ann

og hamingjan í húsi ykkar bjó.

 

Þið byggðuð ykkur bú,

og bráðlega þá töldumst við í fjölskyldunni þrjú.

Þar var samvinna og sátt,

á sumrum þá til vestfjarða var strikið tekið blátt.

 

Æskustöðvaættarbönd

ykkur drógu á fjarðaströnd,

þið landið bæði lofuðuð í kór.

Um það hvergi efast má

að átthaganna heita þrá

hún aldrei burt úr ykkar hugum fór.

 

Í Grímsnesi þið gerðuð reit

sem græna fingur ykkar leit

þið sumarhúsið nefnduð Ljósaland.

Þar marga gesti mátti sjá,

og mikið var nú gaman þá,

því spjallið bæði og spilin voru grand.

 

Á eftirlaunum áttuð þið

unaðsstundir, sælu og frið

og lítill Patti læddist stundum með.

Og fleiri barnabörnin smá

þau blessun fengu ykkur hjá

og enn þau muna ykkar ljúfa geð.

 

Nú fallin ertu frá

þó fæ ég þín að minnast enn af ljúfri sonarþrá.

Ég geng því aldrei einn,

því alltaf lifir minning þess sem lærði ungur sveinn.

 

Vandamálin voru leyst,

og víst ég fékk þér alltaf treyst,

og ráðagóð þú reyndist alltaf hreint.

Ég vissulega vona má

að verði gæfan eins mér hjá,

og fullþakkað ég fæ þér ansi seint.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband