Ranghalarófa

Landið þau erfðu af hagsýnum hjónum

sem höfðu það ræktað svo vel,

og hlunnindin góðu frá heiðum og sjónum

hirtu nú Leggur og Skel.

 

En vinnan var erfið til viðhalds þeim gæðum

og væntingum gróðæris til,

svo námskeið þau sóttu í fjármagnsins fræðum

og fjárhættu- lærðu þá -spil.

 

„Vini“ þau fundu með vitneskju næga

um vélráð og arðrán og plott

sem veittu þeim ráðgjöf um verkamenn þæga

og veðlán og peningaþvott.

 

Og Leggur og Skel töldu leiðina greiða

og lífsgæðakapphlaupið hófst,

en landið á spottprís tókst „vinum“ að veiða

og vefurinn flæktist og ófst.

 

Þau dönsuðu kónga í ranghalarófu

rambandi á hengiflugsbrún

en ótýndir „vinirnir“ óðar upp grófu

hvert einkavætt peningatún.

 

Svo stóðust ey loforðin, leiktjöldin hrundu

og Leggur og Skel fengu sjokk.

Af „hógværum“ lánum á herðum nú stundu:

„Helvítis Fokkings Fokk!“.

 

Ef holan þig gleypir þú hættir að moka,

á himininn stillir þú mið,

og leggur þá frá þér hvern peningapoka

sem pressar þig niður á við.

 

En Leggur og Skel þetta lærðu víst ekki

og líklegast moka þau enn

og vefja sig fastar í framtíðarhlekki

sem fjármagnsins- seldu þeim -menn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heimir Tómasson

Vel kveðið. Að vanda.

Heimir Tómasson, 26.1.2011 kl. 13:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband