Bloggfærslur mánaðarins, október 2010

Ísland lækkar á spillingarleysislista

Fyrirsögnin er öfug á mbl, því að spilling hér er nú talin meiri en áður.

 

Á Íslandi engin fannst spilling

því innmúruð var hún og falin,

en núna er horfin sú hilling

þó hérna sé fyrirsögn galin.


mbl.is Spillingareinkunn Íslands lækkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einnig nauðsyn að tryggja virkni atkvæða

Miðað við þær fréttir sem verið hafa af því hvernig atkvæði verða talin, þá stefnir í það vinsældakjör sem sjálfskipaðir sérfræðingar vara nú ítrekað við.

Sé þetta rétt, þá eru þetta forkastanleg "Yes Minister" vinnubrögð og embættismannakerfinu til algerrar skammar fyrir hönd þjóðarinnar. (Sennilega fær embættismannakerfið þó sérstaka heiðursviðurkenningu frá höfundum þáttanna "Yes minister".)

Undanfarin ár hef ég verið langdvölum í Ástralíu, meðal annars bæði í kosningabaráttu sveitarstjórnarkosninga í fyrra (sem enginn virtist hafa áhuga á), og í kosningabaráttu og kosningum til alþingis þar nú í sumar (sem 1 eða 2 sögðust hafa áhuga á).

Það var afar merkilegt að fylgjast með alþingiskosningunum. Meginástæður þess að nú er "samsteypustjórn" í Ástralíu er sú að kosningakerfið hvetur þig til þess að kjósa þinn uppáhalds frambjóðanda. Nái viðkomandi ekki kjöri, þá færist atkvæði þitt yfir á þann sem þú settir númer 2, og svo koll af kolli, þar til endanleg úrslit eru komin fram.

Þetta virkar svo sjálfsagt á mig, að ég stend og gapi yfir fáránlegum ákvörðunum spillingaraflanna hér á Íslandi.

ES: Í umræðum um Ísland vs. Tasmaníu, sögðu Tasmanir að sennilega væru þeir með alveg jafn spillta stjórnmálaelítu og Ísland, ef ekki kæmi til að þeir væru eitt af ríkjum Ástralíu.


mbl.is Eiga að geta kosið með eðlilegum hætti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Virkur viðskiptavinur

Kona mín og dóttir fóru í vikunni til Lundúna. Áður en þær fóru, var ákveðið að kaupa smá skotsilfur fyrir minni útgjöld, nánar tiltekið 100 pund.

Við fórum í okkar viðskiptabanka, þar sem við vorum afgreidd af vingjarnlegum gjaldkera, sem kannast ágætlega við okkur.

Ég lagði fram debit-kortið mitt til greiðslu, og þá var beðið um farseðilinn minn. Nei, ég var ekki fara út, og var því ekki með neinn farseðil, heldur konan.

Konunni minni var þá flett upp, og okkur sagt að þar sem hún væri ekki virkur viðskiptavinur þá mætti ekki afgreiða hana með gjaldeyri. "Virkur viðskiptavinur", hváði ég. "Hvað er virkur viðskiptavinur?". Jú, þú verður að fá laun inn á reikning í bankanum til þess að vera virkur viðskiptavinur. Já, en konan er ekki í vinnu, en hún hefur verið viðskiptavinur hér í 15 ár og er með veltu á reikningnum sínum. Er það ekki næg virkni? Nei. Samkvæmt reglum bankans er það ekki næg virkni. Landsbankinn í Leifsstöð (sem er iðulega með hærra gengi en aðrir bankar) getur afgreitt þig.

Þar sem ég hef sjálfur unnið í banka (þó nokkuð sé um liðið), þá spurði ég gjaldkerann hvort þetta væri ekki frekar erfitt umhverfi sem framlínufólk í bönkunum ynni í núna. Það var bara dæst.

Sagan  er ekki alveg búin, en þessi hluti hennar er það sem ég vil tjá mig um hér.

Ég mun fagna sérstaklega (bjóða fjölskyldunni út að borða) daginn sem ég get slitið öllum viðskiptum mínum við þennan banka. Stofnun sem ég hef bæða starfað við og verið í viðskiptum við síðan á menntaskólaárum mínum.

ES: Jú, einn hluta sögunnar má nefna í viðbót. Bankarnir biðja nú viðskiptavini um að framvísa (helst) vegabréfi til innskönnunar til að vera alveg viss um hverjir þeir eru. Vegabréf konunnar var skannað, fyrst hún var með það (þó að hún væri ekki virkur viðskiptavinur), og spurt var um mitt. Ég sagðist aldrey myndu koma með það, og vonaði helst að bankinn myndi reka mig úr viðskiptum fyrir þá ósvífni.


"Með sverðið í annarri hendi og plóginn í hinni"

Bókin "Með sverðið í annarri hendi og plóginn í hinni" hefst á því að Jónas frá Hriflu talar á Ungmennafélagsfundi um nákvæmlega þetta.

1907 var óðauppgangur. 1908 kom kreppa. 1909 voru auðmenn að kaupa ofurskuldsetta út úr húsnæði sínu á hrakvirði, sletta á það málningu, og selja aftur með umtalsverðum hagnaði.

Á þessu slær Jónas sér fyrst upp.

Nú er flokkurinn sem hann stofnaði búinn að koma þjóðinni í nákvæmlega sömu stöðu og Jónas barðist gegn. Hans markmið í pólitík var að sameina alla hægri menn þannig að það væri auðveldara að berja á þeim.

Hvenær barði framsóknarflokkurinn síðast á hægri mönnum. Mig rekur ekki minni til þess.

Og nú er vinstri stjórn, sem ætti að kunna þessa sögu utanbókar. Nei. Annað hvort vita þau ekki neitt, eða vilja ekki vita neitt. Að minnst kosti setja þau kíkinn viljandi fyrir blinda augað.

Ég hef örgustu skömm á bæti framkvæmda- og löggjafarvaldinu. Svei þeim.

 

Von.

Sílspikaðir siðblindingjar settust á þjóð

sem flaut að ósi feig.

Eignaðist þá elítan hvern einasta sjóð

og Ísland síðan yfir meig.

Í einum skildi drekka þann teyg.

-

Fáir af þeim fengu beyg

-

en framtíðin í valinn þá hneig.

 

Ráðamenn sem ríkið höfðu rifið í tvennt

festu á þeim ást.

Áfram héldu ótrauðir þó á væri bent

að af þeim myndi þjóðin þjást.

Já, þingið sem og stjórnin hér brást.

-

Ættum við nú um að fást?

-

Eigum við við þá nú að kljást?

 

Von, það er von,

ennþá von,

um að þjóðin bjargist,

um að þingið bjargið,

enn er von!

 

Sjálfræðið er siðblindingjar settu í pant

með viti vernda má.

Ábyrgð bera af útrás þeir sem einskis var vant,

þeir fyrir þessu fá að sjá.

Í fjármagn þeirra ætti að ná.

-

Allir hérna þekkja þá,

-

þeirra verður framtíðin grá.


mbl.is Auðmenn græða á uppboðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband