Bloggfærslur mánaðarins, desember 2009

Eitthvað er nú brogað hér í þýðingu

"Blaðið vísar til þess, að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, WHO, segi að vísindalegar rannsóknir styðji að hættan á brjóstakrabbameini aukist um 10% fyrir hvern dag sem viðkomandi neytir 10 gramma af áfengi."

Sem sagt, eftir 10 drykki sem neytt er sitthvern sólarhringinn, er kona komin með 100% líkur á brjóstakrabba! Eitthvað segir mér að það geti ekki alveg staðist.


mbl.is Tengsl milli áfengis og krabbameins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Álitsgjöf í Kastljósi: Heiðrún Lind Marteinsdóttir

Ég hef dottið inn í álitsgjöf Kastljóss á "versta hinu og þessu" nú tvö kvöld í röð. Þar kemur fram ein manneskja sem er svo á skjön við þann raunveruleika sem ég er að upplifa í íslensku samfélagi, að ég varð kjaftstopp bæði kvöldin. Þó ekki lengur en hingað.

Lifir þessi manneskja, sem, skv. netleit, er/hefur verið Heimdella, kosningastjóri Gísla Marteins, lögfræðingur hjá Lex og "hefur kvenlegan og klassískan fatastíl" (svo öllu sé nú haldið til haga), virkilega í þeim heimi að hún telur fréttastofu RÚV vera skúrk ársins?

Ekki einu sinni DV, sem er á óopinberum óvinalista bláu handarinnar, kemst neðar í sorann en RÚV skv. mati þessarar ágætu konu.

Það er sem sagt meiri skúrksháttur að vera álitinn hallur undir EB-aðild (sem Heið-bláir hafa haldið nokkuð á lofti í ár), en að t.d. kosta íslenskan almenning fleiri hundruð og fimmtíu milljarða, og í einhverjum tilfellum biðja um bónus fyrir viðvikið.

Það er meiri skúrksháttur að vera álitinn hallur undir EB-aðild en að brjóta lög með "barnalánum".

Hneyksli ársins var hjá henni í gær, Búsáhaldabyltingin. Það er þá væntanlega hneykslið að koma frá sjálfstæðisflokkum, sem ekki dugði 18 ár til að setja upp þann lagaramma sem hefði forðað ríkissjóði frá tæknilegu, ef ekki fullu, gjaldþroti.

Það vona ég svo innilega að þessi mæta kona komist aldrei til nokkurra stjórnmálalegra áhrifa.


Hvað var mikið um makaskipti?

Hver var meðalveltan þegar makaskipti eru dregin frá?

Tilbúin verð, sem sett eru á eignir til að halda uppi veðhæfni, ætti ekki að leyfa að hafa áhrif á vísitölur.


mbl.is Ágæt velta á fasteignamarkaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afar góð mynd

Ég fór með börnin á Bjarnfreðarson og hafði af mun meiri ánægju en af Avatar.

12 ára sonur minn sagði að hún væri hjartnæm. Það fannst mér lýsa henni ágætlega.

Bestu þakkir til aðstandenda myndarinnar.


mbl.is Bjarnfreðarson stefnir á fleiri Íslandsmet
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Páll Baldvin Baldvinsson og Ögmundur Jónasson

Páll Baldvin Baldvinsson setur sig á háan hest í Fréttablaðinu í dag (á bls. 40), en nær samt að höggva til Ögmundar Jónassonar fyrir neðan beltisstað.

Annars vegar reynir Páll þessi að mála Ögmund sem utangarðsmann sem eigi nú bara stuðning hjá úr sér gegnum sjálfstæðismönnum - sem miðað við aðrar fjölmiðla- og bloggumræðu sem ég hef séð, er kolrangur misskilningur.

Í hinn staðinn vill hann kenna Ögmundi notkun á íslensku máli, og notar til þess enskuslettur. A.m.k. skil ég mun betur hvað Ögmundur á við þegar hann talar um „íslenska þjóð“ heldur en hvað Páll á við með að eitthvað sé „slæmt keis“.

Kannski var hann að reyna að vera fyndinn. Þetta var þá a.m.k. ekki íslensk fyndi hjá honum, heldur Hólmsteinka sem enginn brosir að nema sértrúaðir.

Af því sem ég hef séð til þessara tveggja manna virðist mér Ögmundur mun heilsteiptari maður. Myndi jafnvel kjósa hann í alþingiskosningum ef að alvöru persónukjör væri í boði. (Flokkins hans, hins vegar, hef ég aldrei og mun aldrei kjósa. Heldur ekki flokk Páls Baldvins, sé ég að finna af honum réttu lyktina.)


Skötulyktin boðar jólin

Sigurður Helgi Guðjónsson er ofstækismaður sem finnst það fínt sport að úthúða okkur skötuætunum á hverju ári.

Merkilegt er að ríkissjónvarpinu finnist hann nægilega áhugaverður til að birta við hann langt viðtal þar sem hann hellir úr hatursskálum sínum yfir þjóðarsið stórs hluta landsmanna. Mér dettur helst í hug að sjónvarpinu þyki þetta álíka sport og að sýna Ástþór í jólasveinabúningi.

Á mínum heimilum hefur verið u.þ.b. 20 manna skötuveisla á Þorláksmessu síðan á áttunda áratugnum. Gesti hlakkar til að koma, og þetta er orðinn aðal hátíðardagurinn minn. Aldrei hef ég vitað til að það hafi skapað nágrannaerjur, nema í huga ofangreinds Sigurðar (sem í kvöldfréttum nú áðan þóttist hafa brotið oflæti af oddi sínum... hvernig sem það er nú hægt).

Gleðilega skötu. (Jú, og jól líka.)

Kæsta skötu karl á morgun fær,

með kartöflunum rauðu, íslensku,

og hnoðmör sem að hrífur niðr'í tær;

hátíðar- er minn þá orðinn -bær.


Var Jósef þá fyrsti munkurinn?

„Okkar kristna trú hefur í 2.000 byggt á því að María sé óspjölluð og að Jesú sé sonur Guðs. Svona skilti er óviðeigandi og vanvirðing við þá trú." segir kaþólski talsmaðurinn.

Er hún óspjölluð enn? Var hjónaband þeirra Jósefs og Maríu þá aldrei fullkomnað?

Jósef aldrei átti séns

eftir að gvuð í spilið kom.

Eftir það var hann alveg lens

og aldrei nokkurn tíman kom.


mbl.is Deilt um meydóm Maríu í Nýja-Sjálandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Katrín sýnir fram á ástæður lágs skors alþingis í trausti

Þú verður fyrir nauðung.

Sá sem beitir nauðunginni býður þér afslátt af áfallahjálp.

Þyggur þú hana?

 

Sá sem keyrði þig í þrot

þykist núna góður.

Óðar gleymast öll hans brot

og hans gildnar sjóður.


mbl.is „Hvar liggja siðferðismörk ráðherra?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Guðmundur Ólafsson: Trúarbrögð komi fyrir hagfræðikenningar

Guðmundur Ólafsson, aðstoðarprófessor og lektor í hagfræði (skv. netuppflettingu), boðaði í morgunútvarpi Rásar 2 í morgun að fyrst að nú væru bæði sósíalista- og kapítalistakenningarnar hrundar, þá væri ekkert eftir fyrir fólk annað, en að snúa sér að gamaldags trúarbragðafræði. Eða annað gat ég ekki skilið af málflutningi hans.

Sum sagt, þegar öfgastefnur hagfræðinnar hrynja, þá skal snúa sér í þær fornu öfgastefnur sem notaðar hafa verið í árþúsundir til að „hafa hemil“ á fólki, því að ekki sé hægt að treysta því að það sé gott hvert við annað án skipulagðra trúarbragða. (Eða var hann að meina öfgaminni trúarbrögð, eins og til dæmis Ásatrú okkar forfeðra. Hávamál eru jú full af lífsspeki sem hverjum manni væri hollt að tileinka sér.)

Út úr orðum Guðmundar fékk ég líka lesið, að hagfræði sé trúarbrögð. Förum við þá að nálgast all hressilega kenninguna „fólk er fífl“, og „við“ þurfum að stjórna fólkinu.

Við mér blasir, all hressilega, að Guðmundur sé að gleyma að til séu fleiri stefnur en öfgastefnur.

Jafnaðarmennska er góð og holl. Reyndar ekki eins og Samfylking mistúlkar hana - heldur það sem þið lærðuð í leikskólanum:

Verið góð hvert við annað.

Ekki taka dót sem annar er að leika sér með, nema að fá leyfi.

Hjálpið minni máttar.

Leikið ykkur saman - fallega.

Leyfið hverjum og einum að njóta sín.

O.s.frv.

(Sjá nánar: http://en.wikipedia.org/wiki/All_I_Really_Need_to_Know_I_Learned_in_Kindergarten)

Að lokum vil ég segja að ég hef, eftir áralangan efa, búið mér til grunn að trúarskoðunum, og öfugt við Guðmund, þá beini ég sjónum til framtíðar, en ekki fortíðar:

Framtíðartrú

Ég trúi því að von sé vert að hafa

von um framtíð mannúðar og lífs.

Að allir þeir sem undan brjótist klafa

eigi nóg til skeiðar bæði og hnífs.

 

Og grimmdin sem að grípur hjörtu manna

ef græðgi þeirra takmörk eru sett,

sé útlæg ger, og sálin hreina sanna,

sjái hvergi mun á neinni stétt.

 

Því víst er það að vit var okkur fengið

í vöggugjöf, og þar það dvelur enn.

Og verkefnið að þróa mannkynsmengið,

svo megum við um geiminn ferðast senn.

 

Því aðeins þessa einu jörð við byggjum

sem endast þarf uns getum við sagt takk,

og lífsins framtíð lengur nokkuð tryggjum

er leggjumst öll í vetrarbrautaflakk.


Mild áhrif Taser - aðeins veikur rafstraumur...

... sem getur ekki valdið dauða!

Hvaða Ólafur Hauksson er þetta sem heldur því fram að Taser hafi ekki valdið svo mikið sem einu dauðsfalli, í Speglinum á Rúv? (Ég missti af upphafsorðum samtalsins þar sem hann hefur eflaust verið kynntur nánar.)

Já já. Hvetjum til þess að skjóta menn í bakið til að meiðast ekki sjálfir!

Hafið þið mikla skömm sem viljið Taser, og hvað þá skotvopn, á hvern þann lögreglumann sem álpast út fyrir hússins dyr.

Stjórnvöld - farið nú að borga lögreglunni almennileg laun og tryggið að mannvinir vilji sækja þar um störf.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband