Skötulyktin boðar jólin

Sigurður Helgi Guðjónsson er ofstækismaður sem finnst það fínt sport að úthúða okkur skötuætunum á hverju ári.

Merkilegt er að ríkissjónvarpinu finnist hann nægilega áhugaverður til að birta við hann langt viðtal þar sem hann hellir úr hatursskálum sínum yfir þjóðarsið stórs hluta landsmanna. Mér dettur helst í hug að sjónvarpinu þyki þetta álíka sport og að sýna Ástþór í jólasveinabúningi.

Á mínum heimilum hefur verið u.þ.b. 20 manna skötuveisla á Þorláksmessu síðan á áttunda áratugnum. Gesti hlakkar til að koma, og þetta er orðinn aðal hátíðardagurinn minn. Aldrei hef ég vitað til að það hafi skapað nágrannaerjur, nema í huga ofangreinds Sigurðar (sem í kvöldfréttum nú áðan þóttist hafa brotið oflæti af oddi sínum... hvernig sem það er nú hægt).

Gleðilega skötu. (Jú, og jól líka.)

Kæsta skötu karl á morgun fær,

með kartöflunum rauðu, íslensku,

og hnoðmör sem að hrífur niðr'í tær;

hátíðar- er minn þá orðinn -bær.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband