Virkur viðskiptavinur

Kona mín og dóttir fóru í vikunni til Lundúna. Áður en þær fóru, var ákveðið að kaupa smá skotsilfur fyrir minni útgjöld, nánar tiltekið 100 pund.

Við fórum í okkar viðskiptabanka, þar sem við vorum afgreidd af vingjarnlegum gjaldkera, sem kannast ágætlega við okkur.

Ég lagði fram debit-kortið mitt til greiðslu, og þá var beðið um farseðilinn minn. Nei, ég var ekki fara út, og var því ekki með neinn farseðil, heldur konan.

Konunni minni var þá flett upp, og okkur sagt að þar sem hún væri ekki virkur viðskiptavinur þá mætti ekki afgreiða hana með gjaldeyri. "Virkur viðskiptavinur", hváði ég. "Hvað er virkur viðskiptavinur?". Jú, þú verður að fá laun inn á reikning í bankanum til þess að vera virkur viðskiptavinur. Já, en konan er ekki í vinnu, en hún hefur verið viðskiptavinur hér í 15 ár og er með veltu á reikningnum sínum. Er það ekki næg virkni? Nei. Samkvæmt reglum bankans er það ekki næg virkni. Landsbankinn í Leifsstöð (sem er iðulega með hærra gengi en aðrir bankar) getur afgreitt þig.

Þar sem ég hef sjálfur unnið í banka (þó nokkuð sé um liðið), þá spurði ég gjaldkerann hvort þetta væri ekki frekar erfitt umhverfi sem framlínufólk í bönkunum ynni í núna. Það var bara dæst.

Sagan  er ekki alveg búin, en þessi hluti hennar er það sem ég vil tjá mig um hér.

Ég mun fagna sérstaklega (bjóða fjölskyldunni út að borða) daginn sem ég get slitið öllum viðskiptum mínum við þennan banka. Stofnun sem ég hef bæða starfað við og verið í viðskiptum við síðan á menntaskólaárum mínum.

ES: Jú, einn hluta sögunnar má nefna í viðbót. Bankarnir biðja nú viðskiptavini um að framvísa (helst) vegabréfi til innskönnunar til að vera alveg viss um hverjir þeir eru. Vegabréf konunnar var skannað, fyrst hún var með það (þó að hún væri ekki virkur viðskiptavinur), og spurt var um mitt. Ég sagðist aldrey myndu koma með það, og vonaði helst að bankinn myndi reka mig úr viðskiptum fyrir þá ósvífni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Offari

Það er því bara spurning hvort við ættum ekki að setja gjaldeyrishöft á óvirka leikmenn.

Offari, 17.10.2010 kl. 00:13

2 Smámynd: Billi bilaði

Það væri kannski reynandi. c",

Billi bilaði, 17.10.2010 kl. 20:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband